150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

vinna við stjórnarskrárbreytingar.

[15:09]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Þetta er gríðarlega mikilvæg yfirlýsing sem hér er gefin. Það er alveg ljóst að við í Viðreisn munum styðja það eindregið að þetta mál verði tekið upp enda er vilji þjóðarinnar skýr, ekki bara í þessari viðhorfskönnun heldur var það svo að þegar við fórum að kafa dýpra ofan í raunverulegan vilja þjóðarinnar í gegnum rökræðukönnunina þá skerptist alltaf á þessari kröfu og sýn þjóðarinnar. Það er ótvírætt að við í Viðreisn munum styðja það að þetta verði sett á dagskrá formanna stjórnmálaflokkanna.

Ég vil líka vekja athygli á því að eins og staðan er núna varðandi til að mynda auðlindaákvæði þá eru skoðanir mjög skiptar á milli formanna flokkanna. Ég beini því til formanns Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og forsætisráðherra að þó að ekki séu allir flokkar mjög hlynntir því, þar á meðal flokkar sem eru með hæstv. forsætisráðherra í ríkisstjórn, að taka jafnt vægi atkvæða inn í stjórnarskrá, er það engu að síður þannig að það eru fleiri flokkar sem styðja það en bara stjórnarflokkarnir sem slíkir. Það eru eindregin tilmæli að taka þetta upp. Það er gríðarlega mikilvægt að hér gildi (Forseti hringir.) að það sé einn maður sem fái eitt atkvæði, að það þýði ekki að sá sem býr í Kópavogi hafi bara hálft atkvæði. (Forseti hringir.) Það er hróplegt misrétti.