150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

vinnulag við gerð aðgerðapakka.

[15:33]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Í lögum um Stjórnarráð Íslands er gert ráð fyrir að ávallt sé starfandi ráðherranefnd um ríkisfjármál og ráðherranefnd um efnahagsmál. Það hefur verið ráðherranefnd um ríkisfjármál sem hefur haldið utan um undirbúning aðgerða sem stjórnvöld hafa kynnt. Þær byggja að sjálfsögðu annars vegar á þeim sérfræðingum sem eru í ráðuneytum Stjórnarráðsins, þá ekki síst fjármála- og efnahagsráðuneytis, og hins vegar þeirri vinnu sem unnin er m.a. á vettvangi Seðlabanka Íslands, Hagstofu Íslands og fleiri fagstofnana sem við styðjumst við í allri okkar stefnumótun. Síðan er það ráðherranefnd um efnahagsmál sem kemur saman sömuleiðis og fer þá yfir stærri myndina, getum við sagt, í efnahagsmálum þjóðarinnar. Þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa kynnt hafa verið undirbúnar á vettvangi ráðherranefndar um ríkisfjármál sem hefur það hlutverk samkvæmt lögum um Stjórnarráðið og styðst að sjálfsögðu við alla þá sérfræðiþekkingu sem er inni í ráðuneytunum.

Fyrir ráðherranefndirnar hefur unnið stýrihópur ráðuneytisstjóra og hann hefur skipað undirhópa sem annars vegar hafa fengist við hagrænu hliðarnar og hins vegar félagslegu hliðarnar. Að sjálfsögðu hefur sá hópur tekið tillit til ýmissa atriða því við, eins og allir aðrir þingmenn, fáum töluvert mikið af ábendingum og hugmyndum frá bæði einstaklingum, hagsmunasamtökum og til að mynda hafa aðilar vinnumarkaðarins komið með töluvert af hugmyndum inn í þessa vinnu. Hún hefur verið kynnt annars vegar á vettvangi þjóðhagsráðs þar sem aðilar vinnumarkaðarins og fulltrúar sveitarfélaganna sitja og hins vegar hef ég haldið nokkra fundi með formönnum flokka og kynnt þá vinnu sem hefur verið unnin.