150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

vinnulag við gerð aðgerðapakka.

[15:36]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Eins og komið hefur fram í máli mínu áður hér þá liggja fyrir ákveðnar sviðsmyndir og fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur mætt á fund efnahags- og viðskiptanefndar og farið yfir þær sviðsmyndir sem liggja fyrir. En eins og ég hef líka margítrekað er mér sagt það af nefndarmanni í efnahags- og viðskiptanefnd og ég get ekki sagt nákvæmlega til um það en ég vænti þess að nefndin hafi kallað ráðuneytið til, til þess að fara yfir út frá hvaða sviðsmyndum er unnið. Mér þætti það skrýtið ef nefndin hefði ekki gert það. Sömuleiðis liggja fyrir þær hagspár sem Seðlabankinn hefur kynnt á opinberum vettvangi, sem eru auðvitað mjög mikilvæg gögn í þessu. Það eru sömu gögn og við öll höfum séð. Ég vil bara ítreka að um þetta er svo mikil óvissa að það er mjög erfitt að tala beinlínis um spár heldur er meira verið að horfa til sviðsmynda þar sem er miðað við hvað það þýði ef við segjum til að mynda að ferðaþjónustan taki ekki við sér á þessu ári og eitthvað slíkt. Þar getum við aldrei talað um spádóma.(Forseti hringir.)

Hv. þingmaður spyr hér um hagsmuni ráðherra. (Forseti hringir.) Auðvitað geta ráðherrar sagt sig frá málum er varða þeirra persónulega hagsmuni og um það eru dæmi. (Forseti hringir.) Það hefur ekki gerst í tengslum við þessar aðgerðir.