150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

loftslagsmál.

718. mál
[15:58]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin en vil ítreka spurningu mína um sölu á mengunarkvótum. Við erum með ótrúlega hreina orku, sérstaklega í rafmagnsframleiðslu. Er það eðlilegt eða er það ekki eiginlega okkur til hneisu að við skulum vera að selja mengunarpakka? Værum við ekki miklu betur stödd að selja þá ekki og geta auglýst okkur sem tiltölulega hreint land? Síðan tökum við á því sem mest er að menga. Ég sé að gerð er krafa um að Ísland lækki um 29%. Við eigum að gera enn þá betur og gætum örugglega gert betur. Okkur ber skylda til þess. Þetta er allt of flókið og mikið. Ég held að við gætum alveg náð þessu og náð betri markmiðum ef við hefðum einfaldari reglur og lög.