150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

loftslagsmál.

718. mál
[15:59]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef ég skil hv. þingmann rétt er hann að vísa til sölu upprunaheimilda með raforku. Það mál tengist þessu máli ekki neitt. Þau eru ekki tengd. Það er annað mál. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að það hljómar afskaplega sérkennilega að á rafmagnsreikningum okkar sé raforka sem er upprunnin með kolabrennslu eða öðru slíku, en það mál tengist ekki þessu. Síðan tek ég undir með hv. þingmanni að 29% samdráttur er bara lágmark og íslenska ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að hún stefni að a.m.k. 40% samdrætti. Það er alveg ljóst að á næstu árum munu koma frekari kröfur um að ríki heims setji sér metnaðarfyllri markmið og sú vinna er í gangi á alþjóðavettvangi.