150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

loftslagsmál.

718. mál
[16:00]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna og vil staldra við kafla í frumvarpinu á bls. 21 sem ber yfirskriftina Mat á áhrifum. Hér er skriffinnska Evrópusambandsins upp á sitt besta og verið er að bæta í í þeim efnum. Því fylgja að sjálfsögðu kröfur á ýmsum sviðum, m.a. um fjölgun starfsmanna með tilheyrandi kostnaði. Hér er verið að fara í mun umfangsmeira loftslagsbókhald, ef svo má að orði komast, og það er rakið á hvaða stofnunum það kemur til með að mæða helst. Það er talað um Umhverfisstofnun, Landgræðsluna og Skógræktina og auk þess fjölmargar aðrar stofnanir. Nú er verið að fara fram á auknar fjárheimildir vegna þessa. Við sjáum fram á umtalsverð útgjöld úr ríkissjóði vegna veirufaraldursins og þess vegna hlýtur að vera nauðsynlegt að fara í ráðdeildarsemi þegar kemur að því að fjölga störfum hjá hinu opinbera á komandi misserum. Það er ljóst að þetta eitt og sér kemur til með að kosta hátt í 80 milljónir hér og nú og síðan sirka 55 milljónir árlega, sé ég hér. Það er verið að fjölga starfsmönnum.

Hæstv. ráðherra vísar í gildandi fjármálaáætlun en henni verður breytt. Sér hæstv. ráðherra fyrir sér að þessir fjármunir séu yfir höfuð til? Er ekki nauðsynlegt að reyna að gæta hagræðis í þeim kostnaðarauka sem fylgir þessu? Er ekki hægt að gera það innan ráðuneytisins í stað þess að sækja þetta beint í ríkissjóð að kröfu Evrópusambandsins eins og margt annað sem kemur þaðan og fylgir þessari skriffinnsku? (Forseti hringir.) Getur hæstv. ráðherra farið aðeins yfir þessar kostnaðartölur og hvort hann telji þetta vera skynsamlegt í ljósi þess sem við erum að kljást við núna hvað varðar útgjöld ríkissjóðs?