150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

loftslagsmál.

718. mál
[16:04]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er spurning hvað er nauðsynlegur kostnaður þegar við stöndum frammi fyrir þessum miklu útgjöldum ríkissjóðs. Hér er tekið fram að það séu aðrar stofnanir sem þetta kemur til með að hafa áhrif á. Eigum við þá von á því að aðrar stofnanir á vegum ríkisins komi til fjárlaganefndar og óski eftir sérstökum fjárheimildum vegna þessa nýja fyrirkomulags? Þetta finnst mér óskýrt hvað kostnaðarmatið varðar.

Í lokin spyr ég hæstv. ráðherra um mikilvægar upplýsingar sem mér finnst vanta. Hver verður kostnaðurinn fyrir atvinnulífið? Það er nokkuð sem við verðum að fá skýr svör um. Við þekkjum þær aðstæður sem atvinnulífið glímir við og þar skipta störfin gríðarlega miklu máli ef verið er að leggja auknar álögur á atvinnulífið sem geta síðan haft slæm áhrif á það að reyna að byggja það upp eins og við erum öll að reyna að sameinast um hér og nú. Þarna eru tvö atriði sem ég hefði gjarnan viljað fá nánari útlistun á.

Mér fannst það ekki koma nógu skýrt fram hjá hæstv. ráðherra varðandi fjármálaáætlunina því að núna þarf að endurskoða hana. Hún verður gjörbreytt frá því sem verið hefur. Er ráðherra þá tilbúinn að beita sér fyrir því að reynt verði að draga úr þessum kostnaði sem frekast er unnt? Mér finnst þetta vera töluverðar upphæðir, vaxandi kröfur frá Evrópusambandinu um skriffinnsku, skýrslugerð og annað slíkt vegna loftslagsmálanna. Við erum vissulega þátttakendur í þessu alþjóðasamstarfi og það er gott og vel, en núna þurfum við bara að gjöra svo vel að horfa í alla kostnaðarliði og sjá hvar við getum sparað og þá er kannski ekki hægt að taka alveg möglunarlaust á móti öllum kröfum frá Evrópusambandinu. Við þurfum að fara nákvæmlega yfir það (Forseti hringir.) hvar við ætlum að finna fjármuni fyrir þessum auknu kröfum.