150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

loftslagsmál.

718. mál
[16:06]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér talar hv. þingmaður um meiri skriffinnsku en ég bendi á að með endurskoðun á skráningarkerfinu sem hér er talað um varðandi ETS-kerfið erum við líklegri til að einfalda kerfið en hitt. Þetta eru allt saman gagnagrunnar sem eru á veraldarvefnum og auðvelda í rauninni alla umsýslu um þetta mál. Ég held að það sé líka mjög mikilvægt að halda því til haga að bókhaldið sem snýr að fyrirtækjunum tekur í sjálfu sér ekki grundvallarbreytingum, tekur reyndar mjög litlum breytingum. Fyrirtækin þurfa að halda því til haga sem snýr að losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi þeirra og það er eftir sem áður þeirra hlutverk að standa skil á því og er grundvallaratriði til að átta sig á þeirri losun sem Ísland ber ábyrgð á. Það er ekki hægt að gera minni kröfur um það núna en hefur verið gert áður. Ég býst ekki við neitt sérstaklega miklum breytingum á því hvað bókhaldið varðar.

Það sem ég nefndi áðan kostar peninga, það er alveg rétt, það að styrkja rannsóknir, sérstaklega þær sem snúa að landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis. Þar er þekkingin ekki næg í dag. Þá þekkingu verðum við að auka einmitt til þess að við getum staðið sterkar að vígi í framtíðinni þegar kemur að því að sýna fram á losunina í þeim geirum og bindinguna sömuleiðis. Það er hagsmunamál fyrir Ísland að geta staðið í lappirnar með rannsóknaniðurstöður á bak við sig þegar þar að kemur.

Ég vil meina að þetta sé til þess gert að styrkja okkur frekar en hitt. (Forseti hringir.) Við þurfum að sýna metnað í loftslagsmálunum og þetta er hluti af honum.