150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

loftslagsmál.

718. mál
[16:09]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við fjöllum um mikilvægt málefni sem er víðfeðmt og snertir alla Íslendinga og hvern jarðarbúa, snertir allt líf á himni og jörð. Nú eru sjö fyrirtæki á Íslandi sem eru þátttakendur í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir fyrir staðbundna starfsemi og þau greiða fyrir sína losun umfram það sem þau fá úthlutað endurgjaldslaust. Ég spyr ráðherra hvort við horfum fram á stöðugleika varðandi endurgjaldslausa losun gróðurhúsalofttegunda eða hvort gjaldtaka verði sennilega stærri hluti af því sem losað er. Hvernig spáir ráðherra um þróun losunar frá þessum stærstu fyrirtækjum sem eru starfandi á Íslandi í framtíðinni? Er unnið markvisst að því að draga úr losun frá þeim? Hvernig beita stjórnvöld sér í þessu efni? Við erum að fjalla um breytingar á þessum lögum og þær varða flugrekendur sem þeim ber að vakta og skila skýrslu um losun frá flugstarfsemi samkvæmt viðurkenndu kerfi til Umhverfisstofnunar. En þessi fyrirtæki eru væntanlega, ef ég skildi rétt, utan viðskiptakerfis ESB. Ég spyr ráðherra: Telur ráðherra að með þessu frumvarpi sé verið að stíga skref í þá átt að fella flugstarfsemi betur undir ákvæði þessa viðskiptakerfis? Hefur verið lagt mat á það hvaða áhrif þetta muni hafa (Forseti hringir.) á starfsgreinina og rekstur þessara fyrirtækja?