150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

loftslagsmál.

718. mál
[16:11]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Hvað varðar endurgjaldslausar losunarheimildir sem hv. þingmaður kom inn á eru breytingarnar sem er verið að kynna til sögunnar á þessu kerfi þær að þessar endurgjaldslausu heimildir eða potturinn öllu heldur sem er til ráðstöfunar fyrir öll fyrirtækin í heild sinni mun skreppa hraðar saman en gert var ráð fyrir á þriðja tímabilinu, þ.e. 2012–2020. Þannig að á tímabilinu 2021–2030 á þessi samdráttur að gerast hraðar en verið hefur hingað til. Þetta er mjög mikilvægt til að búa til þann hvata og þrýsting að þessi fyrirtæki ráðist í tæknibreytingar sem draga raunverulega úr losun og það er markmiðið með kerfinu.

Þegar hv. þingmaður spyr mig um þróun losunar hjá þeim fyrirtækjum sem eru hér heima á Íslandi tel ég einmitt mjög mikilvægt að áþreifanlegur samdráttur verði í losuninni á næstu tíu árum. Það gerist kannski ekki strax en á seinna tímabili þessara tíu ára sem er að ganga í garð. Þar hafa stjórnvöld hvatt til samstarfs og komið á samstarfi m.a. stóriðjufyrirtækjanna og Orkuveitu Reykjavíkur í að leita lausna og leiða til þess að geta nýtt hina svokölluðu CarbFix-aðferð, þ.e. að dæla koltvísýringi niður í berglög og draga þannig stórlega úr losuninni. Ég bind miklar vonir við að þetta gæti gefið af sér á seinni hluta næstu tíu ára og gæti orðið til þess að það dragi úr losun. Ég held að ég verði að koma inn á flugmálin í seinna svari mínu til hv. þingmanns.