150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

loftslagsmál.

718. mál
[16:13]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Með þessum lagabreytingum er gert ráð fyrir enn mikilvægara hlutverki Umhverfisstofnunar, að innheimta þjónustugjöld, úthluta losunarleyfum og fylgjast með og hafa skráningarkerfi á reiðum höndum, ef ég skil rétt. Ég spyr hæstv. ráðherra: Er stofnunin vel í stakk búin til að takast á við aukin verkefni hvað varðar þekkingu, mönnun, tækni og fjármuni í starfseminni?

Svo langar mig að spyrja hæstv. ráðherra ofurlítið um grein í frumvarpinu sem gengur út á nýsköpunarsjóð sem á að stofna og ráðherra á að setja reglugerð um starfsemi þess sjóðs sem mun starfa á Evrópska efnahagssvæðinu. Mig langar að heyra svolítið frá ráðherra um það hvert hlutverk þessa sjóðs er og hver verkefni hans eigi að vera.