150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

loftslagsmál.

718. mál
[16:15]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir innlegg hans og mig langar að koma örlítið inn á það sem hann nefndi varðandi flugið. Við vitum að útblástur frá flugi hefur aukist gríðarlega mikið á undanförnum árum þótt það hafi vissulega dottið niður núna á undanförnum tveimur mánuðum. Það er afskaplega mikilvægt að við náum utan um það alþjóðlega og út á það gengur CORSIA-kerfi Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, að við náum utan um útblástur frá flugfélögum alþjóðlega. Fyrsta skrefið er að mæla hversu mikill hann er til að við getum tekið næstu skref sem eru þá að kolefnisjafna alla aukningu sem verður frá þeim mælipunkti. Það er hugmyndin núna til að byrja með. Svo þurfum við náttúrlega að færast yfir í það að geta dregið úr losun með því að ráðast í nýja tækni og frekari kolefnisbindingu. Það er því mjög stórt verkefni fram undan.

Umhverfisstofnun er að fá á sig fyrst og fremst ákveðin aukin verkefni sem snúa að umsýslu út af bókhaldi og utanumhaldi um ETS-kerfið. Við gerum ráð fyrir því í frumvarpinu að auka fjárframlög til stofnunarinnar. Hún er mjög vel búin af sérfræðingum á þessu sviði, er með fjölmarga umhverfisfræðinga og fleiri sérfræðinga í vinnu hjá sér, þannig að ég hef ekki áhyggjur af því, en það myndi hjálpa henni við að auka mannaflann.

Ef ég næ að koma rétt aðeins inn á þennan spennandi nýsköpunarsjóð sem hv. þingmaður minntist á, þá er honum ætlað að styrkja fyrst og fremst stór verkefni sem varða orkufrekan iðnað, endurnýjanlega orku, (Forseti hringir.) orkugeymslu og -föngun, bindingu og notkun koltvísýrings þar sem verkefnin hafa að meginmarkmiði að stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Ég bind vonir um að hann geti nýst hér heima á Íslandi.