150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

loftslagsmál.

718. mál
[16:18]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál. Efnisatriðin snúa fyrst og fremst að skuldbindingum og losunarheimildum. Það sem ég vil koma inn á við 1. umr. er þáttur sem mér þykir skautað helst til létt yfir, nema niðurstaðan sé sú að enginn kostnaður falli á þau fyrirtæki sem regluverkið fjallar um við þessar breytingar. En miðað við starfsmannafjöldann sem á að vinna með, eins og það er orðað í frumvarpinu, aukna umsýslu Umhverfisstofnunar, þá trúi ég því varla að atvinnulífið sleppi alveg við viðbótarkostnað vegna þessa.

Fram kemur á bls. 22 í texta frumvarpsins, undir Mat á áhrifum, svo snöggt sé rennt í gegnum áhrifin á Umhverfisstofnun, að fjölga þurfi um hálft stöðugildi hjá stofnuninni vegna þessa. Svo segir innan sömu greinar að viðbótarvinna svari til fjölgunar um tvö stöðugildi hjá Umhverfisstofnun. Svo segir áfram að fjölga þurfi um eitt stöðugildi hjá Umhverfisstofnun vegna nýrra verkefna sem þessu tengjast og enn heldur áfram innan sömu greinar og segir að þetta samsvari vinnu fjögurra sérfræðinga í tvö ár en árlegur rekstrarkostnaður eftir það svari til eins eða tveggja stöðugilda. Þetta telst saman vera sex til tíu starfsmenn hjá Umhverfisstofnun. Ef hæstv. ráðherra kemur hingað aftur upp áður en málinu verður vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar væri áhugavert að heyra hvort ég skilji texta frumvarpsins rétt. Mér finnst þetta gríðarleg hlutfallsleg viðbót vegna þessa frumvarps af því að í óundirbúnum fyrirspurnum fyrir innan við klukkutíma síðan kom hæstv. forsætisráðherra upp og svaraði fyrirspurn vegna flækjustigs í regluverki og sagði að þetta frumvarp væri eingöngu til einföldunar. Ég hafði ekki ímyndunarafl til að láta mér detta til hugar að það þyrfti tíu nýja starfsmenn Umhverfisstofnunar til að einfalda þetta regluverk. Mér þætti vænt um ef hæstv. umhverfisráðherra kæmi inn á þetta. Þetta kemur auðvitað til skoðunar í umhverfis- og samgöngunefnd en mér finnst þetta skjóta svo skökku við gagnvart svari hæstv. forsætisráðherra áðan að ég vildi gjarnan fá skýringu á þessu helst núna strax en þó ekki seinna en í meðförum nefndarinnar.

Atriðið sem mig langaði sérstaklega koma inn á við 1. umr. snýr að kostnaði fyrir atvinnulífið og þau fyrirtæki sem undir þetta regluverk heyra. Svokölluð ráðgjafarnefnd um eftirlit á vegum hins opinbera, sem starfar samkvæmt lögum nr. 27/1999, sendi inn umsögn og ábendingar til umhverfisráðuneytisins vegna þessa máls þann 9. október 2019. Það er hið skynsamlegasta plagg að því er mér sýnist og gerðar voru ýmsar ábendingar og athugasemdir. Það er meira að segja rammað svo vel inn að sendur er sérstakur leiðarvísir frá nefndinni um það hvað nefndin sé að fara með ábendingum sínum. Það segir í ábendingum hennar, með leyfi forseta: „Einnig færi vel á því að áætla kostnað fyrirtækja af lagasetningunni ef unnt er.“ Svo er vísað í hjálagðan leiðarvísi.

Ég verð að viðurkenna að ég er ekki búinn að lesa frumvarpið og greinargerð eða annað tengt efni staf fyrir staf en fljótt á litið sýnist mér alveg hafa verið skautað fram hjá þessu nema ef niðurstaðan er sú að enginn kostnaður hljótist af fyrir þau fyrirtæki sem hér undir heyra.

Í 6. kafla greinargerðar með frumvarpinu, um mat á áhrifum, eru talin upp fyrirtæki sem eru þátttakendur í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Þau eru sjö talsins í augnablikinu og hér er Alcan á Íslandi nefnt fyrst. Ég gef mér að átt sé við Rio Tinto í Straumsvík. Svo eru Alcoa Fjarðaál, Norðurál Grundartanga, Elkem Ísland, Fiskimjölsverksmiðja Loðnuvinnslunnar, Verne gagnaver og PCC á Bakka. Síðan er heimild, sem er væntanlega þegar virk, sem snýr að því að fyrirtæki með árlega losun gróðurhúsalofttegunda undir 25.000 tonnum sé heimilt að greiða losunargjald í stað þátttöku í viðskiptakerfinu. Undir þetta, miðað við núverandi stöðu samkvæmt því sem segir í frumvarpinu, falla Fiskimjölsverksmiðja HB Granda á Akranesi, Ísfélag Vestmannaeyja, Steinull hf. á Sauðárkróki og Ísfélag Vestmannaeyja í Þórshöfn.

Það virðist ekki vera gerð nein tilraun til þess að leggja mat á hvort það er eitthvað í þessu regluverki sem auki kostnað þessara fyrirtækja — aftur ítreka ég: nema niðurstaðan sé sú að það sé ekkert sem eykur kostnað. En bara af svari hæstv. umhverfisráðherra við andsvari áðan má ætla að verið sé að draga úr hinum svokölluðu endurgjaldslausu losunarheimildum hraðar en áður var. Hæstv. ráðherra leiðréttir mig ef það er misskilningur. Bara það eina atriði sem kom fram í andsvari við ræðu hæstv. ráðherra bendir til þess að viðbótarkostnaður falli á þau fyrirtæki sem undir þessu regluverki vinna, til viðbótar við það sem fyrir er. Ég vil því ítreka: Það er nauðsynlegt að við náum vel utan um þann kostnað sem atvinnulífið verður fyrir vegna þessa og við metum það hvort í núverandi ástandi sé ástæða til að keyra slíkar breytingar í gegn ef þær eru ekki tilgreindar í tíma gagnvart regluverkinu.

Því miður er auðvitað mjög algengt, eins og allir þingmenn þekkja, að frumvörp séu þannig búin að leitast sé við að ná einhverju marki utan um kostnað hins opinbera við reglusetningu og reglubreytingar en skautað er mjög létt fram hjá því sem snýr að kostnaði atvinnulífsins sem þarf þó að starfa undir þessu regluverki. En að lokum segir ég: Það að sex til tíu starfsmenn þurfi til viðbótar við það sem nú er hjá Umhverfisstofnun til að sinna þessum verkefnum bendir augljóslega til þess að hér sé eitthvað annað og meira í gangi en hæstv. forsætisráðherra kom inn á áðan, sem hélt því fram að hér væri mál sem gengi eingöngu út á það að einfalda utanumhald og regluverk.