150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

loftslagsmál.

718. mál
[16:26]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Háæruverðugur forseti. Ég geri ráð fyrir því að forseti sýni því skilning að það sé óhjákvæmilegt þegar ég hef þessa umræðu að nefna þá dagskrá sem liggur fyrir á þessum þingfundi því að hún er á einn eða annan hátt í tengslum við það mál sem við ræðum nú. Ég varð satt að segja stórundrandi þegar ég sá dagskrána. Nú er 4. maí og rétt búið að slaka á öryggiskröfum varðandi ýmsa starfsemi í landinu og þar með talið starfsemi Alþingis og þó að mánudagar hafi yfirleitt farið í það að gefa ráðherrum tækifæri til að svara fyrirspurnum, munnlegum fyrirspurnum, þá ákveða menn nú að skella á dagskrá lista af málum sem ég held að sé ekki hægt að kalla annað en samansafn af helstu dellumálum ríkisstjórnarinnar. Og byrjað er á þessu.

En hvað er í vændum, herra forseti? Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er sú að þetta helst allt í hendur. Þegar þessi umræða klárast er gert ráð fyrir nýrri umræðu um aukið eftirlit og auknar kvaðir, hollustuhætti og mengunarvarnir, plastvörur. Bann við plasti núna á þeim tímum þegar plast er búið að sanna gildi sitt sem nauðsynlegt efni í því að takast á við kórónuveirufaraldurinn og er notað í eiginlega allan þann búnað sem helst þarf á að halda í því sambandi. Það eru allir andsnúnir því að henda plasti í sjóinn, en það mál sem er hér á dagskrá á eftir er auðvitað fráleitt eins og þau sem fylgja á eftir, áframhaldandi refsingar og útgjöld ríkisins til óhagkvæmra verkefna og auðvitað auknar álögur á almenning eins og með veggjöldum.

En ekki vantar álögurnar í því frumvarpi sem við ræðum og kannski vel við hæfi að byrja á því. Ég verð að viðurkenna, herra forseti, að ég hef ekki haft tækifæri til að lesa þá bók sem fylgir frumvarpinu því að mér datt ekki í hug að þetta yrði sett á dagskrá í dag. Það er sama hvar maður opnar þennan bækling, alls staðar eru nýjar kvaðir og ný gjöld á almenning og atvinnulíf. Tökum bara sem dæmi 28. gr. á bls. 10 þar sem í átta liðum er farið yfir þau atriði sem geta orðið til þess að Umhverfisstofnun fái heimild til að leggja dagsektir upp á allt að 500.000 kr. sektir á dag á hvern þann sem brýtur gegn eftirfarandi atriðum. Mikið af því snýst um flugfélög. Þetta er auðvitað rétti tíminn til að refsa flugfélögum. Þar er til að mynda nefnt í 5. lið að ef flugfélag brýtur skyldu rekstraraðila og flugrekenda til að gera breytingar á vöktunaráætlun megi refsa því, sekta um 500.000 kr. á dag. Það er ýmislegt annað sem flugfélög og aðrir geta gert af sér. Ef þau senda ekki fullnægjandi og vottaða skýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda til Umhverfisstofnunar í tæka tíð, 500.000 kr. á dag. Það er eitthvað um skyldur rekstraraðila og flugrekenda til að afhenda Umhverfisstofnun upplýsingar almennt. Við vitum ekki hvaða upplýsingar það eru, bara ef það vantar einhverjar upplýsingar er 500.000 kr. sekt á dag. Það er allt eftir þessu.

Á sama tíma og flugfélög heims og ekki hvað síst hið mikilvæga meginflugfélag Íslands eru að berjast fyrir lífi sínu kynnir ríkisstjórnin frumvarp um það hvernig megi klekkja á flugfélögunum fyrir að vera að fljúga og nota til þess eldsneyti. Maður hlýtur að velta því fyrir sér hvort ríkisstjórnin setji þetta í samhengi við þann stuðning sem hún hefur boðað að flugfélagið fái takist því að afla frekara hlutafjár, hvort ríkið ætlar að ná sínu til baka með svona refsigjöldum og sköttum eða hvort markmiðin togast á, annars vegar markmið um að halda flugfélögum og samgöngum við landið gangandi og hins vegar markmiðið um að lágmarka slíka starfsemi, eins og birtist í þessu frumvarpi.

Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að ég skil ekki hvað ríkisstjórnin er að fara með dagskrá þessa dags. Þetta eru eintóm dellumál sem ganga þvert á markmið okkar núna við að takast á við líklega mestu efnahagslegu niðursveiflu í meira en 100 ár og sniðin að því að vinna gegn þeim markmiðum sem stjórnvöld hafa að öðru leyti boðað í þeirri vinnu. Þótt ég viðurkenni það, eins og ég nefndi áðan, að ég hafi ekki náð að lesa í gegnum þetta allt saman þá er eiginlega sama hvar gripið er niður, þetta er allt á sömu bókina lært og auðvitað á hverri síðu vísað í Evrópusambandið og að þetta snúist um að uppfylla kröfur Evrópusambandsins. Það er svo álitamál hvort Evrópusambandið er enn að vinna eftir þessum gömlu kröfum á sama tíma og það er að reyna að bjarga flugfélögum sínum.

Svo ég haldi áfram af handahófi að grípa niður í þessa bók þá kemur fram á bls. 19, í kaflanum um samráð, að frumvarpið sé unnið í náinni samvinnu við Umhverfisstofnun. Svo segir, með leyfi forseta: „enda gegnir stofnunin mikilvægu hlutverki sem lögbært stjórnvald samkvæmt viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir og sem landsstjórnandi skráningarkerfisins.“ Það var sem sagt haft samband og samráð við landsstjórnanda skráningarkerfisins um að undirbúa þetta frumvarp en reyndar fylgir svo á eftir, sýnist mér, að Umhverfisstofnun hafi upplýst rekstraraðila um hvað var í vændum. Þannig að samráðið var við landsstjórnandann sem svo upplýsti þá sem verða fyrir barðinu á þessu frumvarpi um hvað væri í vændum í framhaldinu.

Ég held áfram stuttlega að grípa niður í þetta af handahófi. Tökum bara byrjunina á kafla 6, Mat á áhrifum: „Ljóst er að byggja þarf betur upp loftslagsbókhald Íslands til að mæta þeim kröfum sem eru settar í reglugerðum ESB um sameiginlega ábyrgð og landnotkun, breytta landnotkun og skógrækt.“

Skógrækt, herra forseti, er mjög af hinu góða og gagnast í baráttu við losun gróðurhúsalofttegunda betur en líklega flestallt annað. En það sem virðist vera lögð meiri áhersla á er að moka ofan í skurði en það er enn þá algjörlega óljóst hvort og hversu mikil áhrif verða af því og hvort þau áhrif séu jákvæð eða neikvæð, því að þegar menn endurheimta votlendi losar það votlendi metan sem er a.m.k. tuttugu og þrisvar sinnum áhrifameiri gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur.

Ég veit ekki hvort ég á að þreyta hæstv. forseta með því að halda áfram af handahófi að grípa ofan í þetta handrit en eflaust mun þurfa að ræða þetta mjög ítarlega í 2. umr. málsins, komist málið svo langt, því að það er algerlega úr tengslum við raunveruleikann sem við stöndum frammi fyrir núna og uppfullt af Evróputilskipunum og neikvæðum hvötum, ekki hvötum til að ráðast í framþróun sem gagnast umhverfinu og dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda — nei, þetta er allt í samræmi við það sem Evrópusambandið lagði upp með og ég tel, eða vona a.m.k., að það sé að hverfa frá. Allt í samræmi við það sem snýst um sýndarmennsku, brellur, að ráðast í aðgerðir sem eru til þess fallnar að menn geti sýnst vera að bregðast við fremur en að hvatt sé til aðgerða sem raunverulega geta virkað. Auðvitað hafa vaknað mjög margar spurningar síðustu misserin um hvort margt af þessu sé eintóm svikamylla þegar t.d. menn leggja af iðnað á Vesturlöndum og flytja hann til Kína sem rekur hagkerfi sitt og framleiðslu á kolabruna og kaupa svo varninginn þaðan, vegna þess að hann sé framleiddur samkvæmt umhverfisskilyrðum Kínverja með kolabruna frekar en að vera framleiddur hér til þess einmitt að losna við þetta úr bókhaldinu sem nefnt er ítrekað í þessum bæklingi. Með öðrum orðum: Falsanir.

Þetta leiðir hugann að ákaflega sérstöku svari hæstv. forsætisráðherra við fyrirspurn hv. þm. Bergþórs Ólasonar í fyrirspurnatíma áðan þar sem hv. þingmaður spurði hvort ráðherrann myndi reyna að draga úr innleiðingu íþyngjandi regluverks og eftirlitsiðnaðar. Hæstv. forsætisráðherra virtist koma af fjöllum og spurði sérstaklega hvort hv. þingmaður væri mótfallinn reglum um skráningu raunverulegra eigenda. Hvers konar mál er það nú, herra forseti? Ég veit að fólk um allt land, þátttakendur í kórastarfi, saumaklúbbum, hjálparstofnunum o.s.frv., hefur þurft að undanförnu að skrá sig sem raunverulega eigendur félagsskapar síns, sama á við um stjórnmálaflokka, það eru margir þingmenn hér skráðir eigendur síns flokks, til þess að uppfylla þessar kröfur. Ella áttu menn á hættu að fá dagsektir eins og hótað er í þessum bæklingi. Svoleiðis að skilaboðin verða: Skráðu þig bara sem eiganda. Við vitum að þú ert ekkert eigandi kórsins en skráðu þig fyrir alla muni því að þetta eru kröfurnar. Með öðrum orðum, þetta snerist ekki um aukið gagnsæi, eins og hæstv. forsætisráðherra orðaði það, þetta snerist um fölsun upplýsinga.

Það er einmitt vandamálið í þessum umhverfismálum líka. Þetta snýst allt of mikið um að draga upp ranga mynd til að stjórnvöld geti sagst vera að gera eitthvað í málunum. Þegar settar eru upp vindmyllur í Þýskalandi, Danmörku, Bretlandi eða annars staðar í Evrópu eru þær vindmyllur yfirleitt að langmestu leyti framleiddar í Kína. Það þarf gríðarlega mikið stál, bæði í undirstöðurnar og vindmyllurnar sjálfar, og þetta stál er framleitt með kolabruna í Kína. Færð hafa verið ágætisrök fyrir því að framleiðsla á þessum vindmyllum í Kína losi umtalsvert meira af gróðurhúsalofttegundum en vindmyllurnar svo spara þegar búið er að setja þær upp og þær komnar í rekstur í Evrópu.

Þetta er allt á sömu bókina lært, herra forseti. Í stað þess að koma hér með framsýnt frumvarp um það hvernig hægt sé að veita jákvæða hvata, t.d. skattalega hvata, svo fyrirtæki nýti tækni, ráðist í tækniþróun og nýsköpun til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og vernda umhverfið þá eru hér kynntir fleiri og fleiri refsiskattar til að refsa almenningi og fyrirtækjum fyrir það að lifa lífi sínu, framleiða vörur, framleiða verðmæti eða bara komast á milli staða. Það að þetta skuli kynnt nú, lagt hér fram á sama tíma og samfélagið stendur frammi fyrir mestu efnahagsniðursveiflu í 100 ár er að mínu mati algjörlega óskiljanlegt, rétt eins og þau mál sem fylgja á eftir, herra forseti. Þeim virðist hafa verið raðað inn, varla af tilviljun, til að búa til dellumáladaga ríkisstjórnarinnar og reyna að henda sem flestum vandræðamálum hér í gegn með sem minnstri umræðu á meðan búið er að útbúa undarlegar ráðstafanir svo a.m.k. hluti þingmanna geti fylgst með en þingstörf þó ekki orðin eðlileg á nokkurn hátt. Ég minni á að fjöldi þingmanna er í þeirri aðstöðu að geta ekki mætt og tekið þátt í þessari umræðu og varað við því sem hér er að gerast.

Ég ítreka að málið mun krefjast mikillar skoðunar og frekari umræðu. Þegar kemur að 2. umr. verð ég vonandi búinn að ná að lesa í gegnum allan þennan bækling en mér sýnist á öllu að það muni skila sér í mun fleiri athugasemdum við það sem stefnt er að hér.