150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

loftslagsmál.

718. mál
[16:41]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir margt í ræðu hv. þingmanns að því er lýtur að umfangi þessa þingmáls sem er gríðarlega mikið. Ég held ég geti leyft mér að fullyrða það að þegar mál eins og þetta kemur inn í utanríkismálanefnd, sem sú er hér stendur stýrir, hafa nefndarmenn þar eða nefndin eða aðrir þingmenn jafnvel takmarkaðar forsendur til að skoða það, þ.e. þegar mál koma inn á því stigi að verið er að heimila að mál sem þetta sé tekið upp inn í EES-samninginn, en það er forsenda þess að þetta þingmál hefur komið hingað inn á þingið. Ég hvet því í framhaldi af þessari umræðu til þess að hv. þingmaður ásamt öðrum þingmönnum skoði málið efnislega afar vel.

Í frumvarpinu kemur fram, sem er kannski grundvallaratriði í málinu, að Ísland hefur gert samkomulag við Evrópusambandið og Noreg um sameiginleg markmið um 40% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta samkomulag byggir á þátttöku Íslands í hinum svokallaða Parísarsáttmála sem kveður á um þennan samdrátt í losun og á að miðast við til ársins 2030 og þá miðað við losun árið 1990. Hv. þingmaður er hokinn af reynslu, ekki bara á þinginu heldur líka úr ríkisstjórn og var forsætisráðherra á sínum tíma þegar Ísland tók þá ákvörðun að taka þátt í þessum Parísarsáttmála, og því vildi ég spyrja hvort mögulega hafi verið gerð mistök þá, hvort hann hafi verið þvingaður eða einhvern veginn ýtt út í það að óathuguðu máli að binda Ísland við þær skuldbindingar sem Parísarsáttmálinn kveður á um.