150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

loftslagsmál.

718. mál
[16:44]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka prýðilega fyrirspurn. Ég heiti á hv. þingmann að stýra þessum málum vel í sinni nefnd eins og ég veit að hv. þingmaður gerir jafnan. En varðandi spurninguna: Já, ég skrifaði undir þennan Parísarsáttmála, eins og ég hef játað áður í ræðustól, og gerði það með nánast öllum öðrum forsætisráðherrum eða þjóðarleiðtogum heims. En ég verð að viðurkenna, eins og ég hef reyndar gert áður, að á því voru mjög verulegir vankantar, sérstaklega þegar kom í ljós með hvaða hætti kerfið, ekki bara á Íslandi heldur í Evrópu og víðar, ætlaði að ná þessum markmiðum. Markmiðin eru fín og markmiðin eru nauðsynleg, að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. En þegar maður sér með hvaða hætti á að ná þeim markmiðum áttar maður sig á því að þegar þjóðarleiðtogar skrifa undir samkomulag um markmið er mikilvægt að menn passi í framhaldinu upp á hvernig eigi að ná þeim markmiðum. Þær aðferðir sem hér eru boðaðar til að ná markmiðunum eru ekki til þess fallnar að mínu mati að skila þeim ávinningi sem að er stefnt og í sumum tilvikum jafnvel til þess fallnar að hafa öfug áhrif, vera skaðlegar, eins og ég nefndi í einu dæmi í ræðu áðan varðandi vindmylluvæðinguna, stóru lausnina sem í raun skilar mjög litlum, kannski neikvæðum, áhrifum í loftslagsmálum.