150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

loftslagsmál.

718. mál
[16:45]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt að ég haldi því til haga að umfjöllun um þetta mál er lokið í þeirri nefnd sem ég stýri, utanríkismálanefnd, en kemur auðvitað til umfjöllunar í öðrum nefndum. Þar held ég að við hv. þingmaður verðum að binda miklar vonir við hv. umhverfisnefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar. Við erum alveg örugglega öll sammála um það hérna í þinginu að það sé göfugt og gott markmið að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ég veit hins vegar ekki hvort við hv. þingmaður erum sammála um það að markmið Parísarsáttmálans sem slíks séu ekki endilega raunhæf eða eðlileg og þar af leiðandi ekki góð og göfug í tilfelli Íslands vegna þess að í Parísarsáttmálanum er þessi losun sérstaklega miðuð við, án þess að það hafi nokkurn tíma verið rökstutt, ár sem henta Íslandi ákaflega illa. Þar er kveðið á um samdrátt við losun gróðurhúsalofttegunda miðað við árið 1990 en fyrir þann tíma hafði mesti samdráttur Íslands þá þegar farið fram. Að því leyti verð ég að segja að þegar ég horfi til baka, kannski er það ekki sanngjarnt en þetta er samt bara tölfræði á blaði og ætti að blasa við hverjum manni sem vildi kannast við það á þeim tíma þegar Parísarsáttmálinn var undirritaður, gat þessi viðmiðun engan veginn verið eðlileg í ljósi Íslands og sérstakra aðstæðna á Íslandi. Hv. þingmaður hefur viðurkennt að það hafi kannski verið mistök að taka þátt í þessu. Ég velti því fyrir mér hvort hann geti upplýst hvort það hafi verið mistök hans eða einhverra fleiri. Ég held að það sé sérstaklega skoðunarvert að hvaða leyti hagsmunum Íslands er haldið til haga í alþjóðasamstarfi sem þessu. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji ástæðu til að skoða grundvöll þessa samkomulags í ljósi þeirra mála sem nú streyma inn á grundvelli þess.