150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

loftslagsmál.

718. mál
[17:12]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir ræðuna. Það er tvennt sem ég ætlaði að koma inn á, hv. þingmaður svaraði svo sem að hluta til öðru atriðinu sem snýr að því sem mig langaði til að spyrja hv. þingmann um: Ef við horfum á tveggja ára líftíma efnahagsvandamála Covid-heimsfaraldursins, bara til að festa einhvern tímapunkt, maður verður bara að gefa sér þær forsendur að það verði tveggja ára rammi þar sem efnahagslíf heimsins, sérstaklega flug og ferðaþjónusta, verði í raunverulegum vandræðum, telur hv. þingmaður að viðbótarkostnaður vegna aðgerða eins og hér eru lagðar til skipti máli í þeirri mynd? Það er fyrri spurningin.

Hin spurningin er í rauninni mjög einföld og tengist því sem hv. þingmaður kom inn á þar sem hann gagnrýndi að Miðflokkurinn hefði ekki komið fram með tillögur um það hvernig skyldi draga úr losun stóriðjunnar á gróðurhúsalofttegundum. Þá langar mig að spyrja hv. þingmann: Skiptir máli hvar í heiminum losun gróðurhúsalofttegunda á sér stað?