150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

loftslagsmál.

718. mál
[17:13]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka andsvarið. Svo ég taki nú síðari spurninguna fyrst: Auðvitað skiptir ekki máli hvar losun á sér stað. Við erum með þessar fimm stóru verksmiðjur og erum búin að vera með þær í öll þessi ár og þær losa mjög svipað og aðrar verksmiðjur. Nú er ég ekki að tala um rafmagnsframleiðsluna, bara verksmiðjurnar sjálfar. Svo kemur auðvitað rafmagnsframleiðslan til viðbótar og hún er tiltölulega græn hér en ekki í Kína, segjum það. Það hefur enginn gert athugasemdir við að þessar verksmiðjur standi hér áfram næstu árin, en geri þær það þurfa þær að taka þátt í að minnka losun með einhverju móti. Það kemur niður á álverunum, það kann vel að vera. Það kann líka vel að vera að ál framleitt með þessum hætti geti selst á betra verði en ýmislegt annars konar ál. En þó svo væri eru þau ofurseld þeirri kvöð að þurfa að minnka losun með öllum ráðum. Heimurinn er grimmur stundum.

Skiptir viðbótarkostnaður máli? Vissulega. En baráttan gegn loftslagsmálum er ekki ókeypis og það er ekki hægt að slá slöku við hana. Ef þetta þýðir t.d. hækkandi flugmiðaverð, tíu dollarar á eitthvað sem kostar 500 dollara, þá verður það svo að vera. Við getum á engan máta fríað hvorki stóriðjuna né flugið frá því að taka þátt í þessu starfi áfram með kostnaði.