150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

loftslagsmál.

718. mál
[17:15]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir prýðisgóð svör. Það var ánægjulegt að fá svar, ég reyndi að spyrja hæstv. forsætisráðherra þessarar spurningar fyrir ekki löngu síðan, hvort ráðherrann teldi það skipta máli hvar losun ætti sér stað en ég fékk ekki svar við þeirri spurningu á þeim tíma. En ég er þakklátur fyrir þetta skýra svar enda vitum við svo sem alveg hvert svarið er í þessum efnum.

Þá vil ég koma að því að við í Miðflokknum höfum reglulega bent á að það væri skynsamlegt að auka framleiðslu hér innan lands, styðja við innlendan iðnað og fleira slíkt. Ég held að svarið sem snýr að stóriðjunni hverfist að nokkrum hluta um það, því að nauðsynleg er að horfa á meira en bara losun álversins sjálfs, auðvitað þarf að horfa á raforkuframleiðsluna líka. Hv. þingmaður kom inn á „life cycle assessment“, lífsferilsgreiningu eins og hann þýddi það, í tengslum við vindmyllur eða vindmyllugarða og það verður að taka raforkuframleiðsluna inn þegar metin er heildarlosun álframleiðslu hér heima samanborið við Kína. Ef við þrengjum dæmið mjög og segjum að valkostur væri að tiltekið álver í Kína sem framleiðir 500.000 tonn yrði rekið á Íslandi, hvort telur hv. þingmaður að kæmi betur út hvað heildarlosun gróðurhúsalofttegunda varðar?