150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

loftslagsmál.

718. mál
[17:17]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú gerast spurningarnar ærið framúrstefnulegar. Væri ég ánægður með það að flytja 500.000 tonna álver frá Kína til Íslands? Hjálpi mér hamingjan, ég hef aldrei hugleitt það. Það sem ég veit hins vegar, hv. þingmaður, er að við þurfum vissulega að auka innlendan iðnað, eins og hann segir, og innlenda starfsemi margs konar. (BergÓ: … minni losun?) Orkufrekur iðnaður er til af ýmsum toga. Það þarf ekki að vera álver, það þarf ekki að vera málmblendiverksmiðja, það þarf ekki að vera önnur kísilmálmverksmiðja svokölluð. Reyndar verðum við að muna eftir því í hvað þessi kísill sem er framleiddur á Bakka er mikið notaður. Hann er notaður í sólarsellur, sem er reyndar mjög jákvætt. En aðalatriðið er að við framleiðum einhver X megavött af grænni raforku. Við ákveðum sjálf hvernig við hagnýtum hana, í gagnaver, það sem kæmi út úr alls konar íslenskri nýsköpun, hvort við leyfum hér einhvers konar málmiðju eða annars konar orkufrekan iðnað eins og Becromal. Það gagnrýnir enginn Becromal vegna þess að það ku vera mjög mengunarlítil stóriðja o.s.frv. Ég ætla líka að minna okkur sjálf á að stóriðja samkvæmt íslenskum lögum er sá iðnaður sem notar 17 megavött eða meira. Þannig að þetta er spurning sem ég treysti mér ekki til að svara nema það að ég myndi vilja sjá allt annað en þetta 500.000 tonna álver frá Kína og reyna að koma þeim iðnaði á koppinn sem væri samsvarandi í verðmætasköpun með einhverjum öðrum hætti.