150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

loftslagsmál.

718. mál
[17:20]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Maður veigrar sér hálfpartinn við að koma upp í andsvar við mann sem virðist vita allt, talar í það minnsta þannig til okkar hinna að það viti enginn neitt nema hv. þingmaður. Svolítið sérstök nálgun úr þessum ræðustól. Þingmaðurinn svaraði vitanlega ekki spurningunni sem hann var spurður að áðan, hvort hann teldi betra að framleiða 500.000 tonn af áli í Kína eða á Íslandi, þannig að ég ætla að spyrja hann aftur að því. Hvort er betra fyrir umhverfið að framleiða á Íslandi eða í Kína? Svo langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann geti upplýst mig um það hvað votlendi á Íslandi losar mikið. Þingmaðurinn virtist geta upplýst okkur um það rétt áðan. Síðan langar mig að spyrja þingmanninn hvort er betra eða umhverfisvænna að framleiða raforku með vatnsafli eða vindmyllum. Í fjórða lagi langar mig að spyrja þingmanninn hvort hann telji koma til greina að beita jákvæðum hvötum eins og t.d. að lækka skatta, að lækka álögur, endurgreiða kostnað til álfyrirtækja eða hreinlega til þeirra sem kaupa sér bíla til að hvetja til þess að menn noti umhverfisvænar lausnir.