150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

loftslagsmál.

718. mál
[17:21]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að játa að ég náði ekki síðustu spurningunni þannig að ég bið um leyfi til þess að fá þá spurningu utan úr sal. Mér þykir leitt ef þingmaðurinn heldur, af því að ég hélt hér ræðu og gagnrýndi Miðflokkinn, að þá þykist ég vita allt. Ég veit langt í frá allt. En ég veit meira en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson t.d. um vindmyllur, smíði þeirra og notkun og um votlendi og framræslu þess vegna þess að ég hef kynnt mér það mjög vandlega út af mínu starfi. En látum það nú vera. Mér leiðist svona tal.

Hvort er betra að framleiða ál í Kína eða á Íslandi? Það er auðvitað betra að framleiða það á Íslandi. Er það ekki? Ég hélt ég hefði svarað því í mínu fyrsta andsvari. Með votlendið er giskað á losunina vegna þess að verkurinn er sá að votlendisframræsla á Íslandi er misgömul. Hún byrjar í kringum 1946 og er enn þá stunduð þannig að við vitum ekki mjög vel hversu mikið er losað í heild. Ágiskun er 5–10 milljónir tonna. Það sem við vitum hins vegar er að þær tölur sem eru fengnar með nákvæmum mælingum á misgamalli votlendisframræslu og við skulum segja jafnvel mismunandi tegundum votlendis, vegna þess að það er líka til, passa vel við þær alþjóðlegu tölur sem eru notaðar af vísindamönnum til þess að mæla yfir höfuð með endurheimt votlendis.

Svo verð ég að biðja hv. þingmann um að spyrja mig á ný síðustu spurningarinnar.