150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

loftslagsmál.

718. mál
[17:23]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er áhugavert því að hv. þingmaður hefur ekki hugmynd um það, hann veit ekkert um það hvað framræst votlendi losar mikið á Íslandi. Það eru einhverjar ágiskanir uppi, eins og þingmaður sagði réttilega, um hvað það losar mikið en samt er svona mikilvægt og nauðsynlegt að taka það inn í jöfnurnar þó svo að þingmaður hafi ekki hugmynd það, er með einhverja dellu hér í ræðustól um hvað þetta mengar mikið.

Ég spurði þingmanninn hvort hann teldi ekki fýsilegt að beita jákvæðum hvötum til að hvetja fyrirtæki og fólk til að bregðast við loftslagsvandanum, t.d. með því að lækka skatta, gefa afslátt af opinberum gjöldum til þeirra sem nýta sér umhverfisvænar lausnir, velja umhverfisvænar bifreiðar, annan ferðamáta eða hvað eina, fjárfesta í tækni, að fyrirtæki sem fjárfestir í tækni til að draga úr umhverfisáhrifum fái hvatningu, t.d. afslátt af sköttum eða gjöldum. Það var það sem ég spurði hv. þingmann um í síðustu spurningu minni. Ég spurði hann líka um það hvort væri betra að framleiða rafmagn með vatnsafli eða vindmyllum, fyrst þingmaðurinn er alfróður um vindmyllur, þá hlýtur hann að vera það líka um vatnsafl. Þess vegna spyr ég hvort það sé betra fyrir Ísland að auka notkun vatnsaflsvirkjana og mögulega jarðhita líka, alla vega vatnsafl, í stað þess að vera að horfa á vindmyllur eins og virðist vera vinsælt þessa dagana.