150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

loftslagsmál.

718. mál
[17:42]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa seinni ræðu hans. Það er tvennt sem mig langar að koma inn á. Annars vegar snýr það að fjölda nýrra starfsmanna. Það stendur í plagginu að þetta séu sjö og hálft stöðugildi. Ég veitti því reyndar ekki athygli við fyrsta yfirlestur að hluti þeirra er hjá Landgræðslu og Skógrækt en punkturinn er engu að síður sá sami, þetta frumvarp virðist kalla fram umtalsvert umfang viðbótarvinnu hjá hinu opinbera. Þetta eru sjö og hálft stöðugildi og þeim mun síðan fækka að tveimur árum liðnum þegar þau áhrif koma fram, eins og segir í frumvarpinu, sem samsvarar vinnu fjögurra sérfræðinga í tvö ár en árlegur rekstrarkostnaður eftir það svari til eins til tveggja stöðugilda. Þannig að einhver hluti vinnunnar klárast á tveimur árum, en næstu tvö árin eru þetta sjö og hálft stöðugildi, bara eins og það er útlistað í frumvarpinu.

En spurningin sem ég vildi koma á framfæri til hæstv. ráðherra er hvort minnkað umfang, fækkun losunarheimilda í tonnum talið, liggi fyrir á þessum tímapunkti, þ.e. hver fækkun hinna svokölluðu ókeypis losunarheimilda verður á hverju tímabili.