150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

loftslagsmál.

718. mál
[17:44]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég gerði mjög óformlegan útreikning hér á leiðinni upp í pontu og miðaði við það verð sem er tilgreint í 9. gr. frumvarpsins, að gjald fyrir hvert tonn losunar skuli jafngilda meðalverði losunarheimilda á Evrópska efnahagssvæðinu eins og það er á árstímabili sem lýkur 31. júlí ár hvert o.s.frv. Fyrir árið 2020 eru það 3.025 kr. fyrir hvert tonn. Ef við miðum við 6 milljónir tonna eru það 18 milljarðar sem koma til greiðslu hjá þessum fyrirtækjum miðað við aðrar óbreyttar forsendur. Ég hefði nú einhvern tímann talið að það væri ástæða til að tilgreina 18 milljarða viðbótarkostnað gagnvart nokkrum fyrirtækjum. Þetta er það sem ég var að minna á og gagnrýna í ræðu minni, mér þætti skautað ansi létt fram hjá kostnaðarhluta atvinnulífsins. Þó að viðbótarvinna innan hins opinbera kerfis hjá Umhverfisstofnun og síðan Skógrækt og Landgræðslu, eins og kemur fram í frumvarpinu, sé ágætlega römmuð inn, þá vantar vinkilinn hvað atvinnulífið varðar og 18 milljarðar er alvörutala sem ekki er hægt annað en að taka tillit til í þessu samhengi.