150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

loftslagsmál.

718. mál
[17:46]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég efast ekki um að útreikningarnir voru réttir miðað við 6 milljónirnar en það er í heild í kerfinu, þannig að það er ekki bara Ísland eins og ég skil þetta og ég held að það sé örugglega réttur skilningur hjá mér.

Það sem ég vildi nefna að lokum í þessu andsvari mínu er að það er mín tilfinning að við höfum náð að ræða svolítið vel núna, varðandi kostnað hins opinbera, nauðsynina á því ekki síst að geta aukið rannsóknir á því hvað við erum að losa frá landi en líka hvað við erum að binda. Þess vegna skiptir máli að við getum náð svolítið sameiginlegum skilningi á mikilvægi þess.

En aftur að því sem hv. þingmaður kom að með þessi fyrirtæki. Þau fyrirtæki sem við erum að tala um hér eru þau sem eru á þessum svokallaða lekalista þar sem verið er að reyna að koma í veg fyrir kolefnislekann. Það eru ekki nærri því öll fyrirtækin sem heyra undir ETS-kerfið. Það eru bara sum þeirra. Og það eru sum fyrirtækjanna á Íslandi sem heyra undir það. Þannig að 18 milljarðarnir, sé það rétt reiknað hjá hv. þingmanni, eru í heild sinni fyrir kerfið, miðað við þær upplýsingar sem ég hef í höndunum.