150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

734. mál
[19:19]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Já, þessi skýrsla sagði kannski ekki akkúrat af eða á en við vitum þó að yfirlýsingar þeirra sem hafa starfað í ferðaþjónustu úti á landi og á þeim stöðum sem hér hafa verið nefndir hafa bent á að eldsneytisverð sé einn af þeim hlutum sem eru fráhrindandi við þetta reglulega millilandaflug sem svo marga dreymir um og getur vissulega skipt máli. Ég vil því hvetja hæstv. ráðherra til að setja strax af stað þá vinnu sem hann nefndi hér, hann orðaði það þannig að það væri í athugun að setja hana af stað. Um að gera að byrja strax að velta því fyrir sér og halda því þá opnu að fella millilandaflugið frá þessum stöðum eða stöðum sem hafa kost á því undir þessa nýju framkvæmd, reynist hún góð.

Ég segi núna, reynist hún góð, herra forseti, vegna þess að það kemur fram í frumvarpinu, að a.m.k. eitt olíufélag hafi áhyggjur af því að breytingin, í það minnsta eins og hún lá fyrir á þeim tíma, geti haft þau áhrif að olíuverð eða verð á þessum vörum hækki á sömu stöðum eða dreifingin leggist jafnvel af. Við sjáum að net þessara dreifingaraðila er misþétt þegar kemur að landsbyggðinni og það er augljóst að dýrara er að flytja og halda uppi starfsemi á ákveðnum stöðum en öðrum. Þess vegna er svo mikilvægt að niðurgreiðslan hverfi ekki fyrir þessa staði.

Ég vil hvetja ráðherra til þess að taka af allan vafa um það. Ef það liggur ekki ljóst fyrir þá komi það fram í nefndinni að ekki verði gengið frá málinu nema tryggt sé að verð hækki ekki og að þessi breyting verði ekki til þess að loka þurfi einhverjum þjónustustöðvum eða stöðvum úti á landi sem full þörf er á að afgreiði þessar vörur.