150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

734. mál
[19:25]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nei, það er ekki hægt að skilja þetta þannig, hv. þingmaður. Eins og ég fór yfir í máli mínu er kerfið í dag mjög dýrt og er sóun á peningum, þeir fara ekki til þess verkefnis sem þeir eiga að fara. Í dag er lagt á flutningsjöfnunargjald. Síðan er umsýsla með það fram og til baka, með sérstakri stjórn og alls konar umfangi sem gerir það að verkum að síðan fer ákveðinn hluti til að jafna flutninginn. Með því að leggja á viðbótarvörugjald á olíuna við innflutning er verið að tryggja skaðleysi ríkissjóðs. Í staðinn fyrir að setja þetta flutningsjöfnunargjald á koma tekjur til ríkisins upp á um 170 milljónir. Þeim fjármunum er síðan deilt út til þeirra staða þar sem þörf er á að jafna flutninginn til, til að tryggja annars vegar þjónustu, að hún verði til staðar og leggist ekki af, og hins vegar að verðið sé eðlilegt. Það er verið að leggja af flókið, íþyngjandi kerfi fyrir fyrirtækin í landinu og allt svæðið, og dýrara. Ég hefði talið að þingmenn Miðflokksins, miðað við það sem ég hef hlustað á hér í dag, væru ánægðir með að hér sé verið að létta af stjórnsýslubyrðum og íþyngjandi aðgerðum fyrir fyrirtækin í landinu og koma með gegnsærri stuðning til þeirra aðila sem þess þurfa.