150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

orð þingmanns um annan þingmann.

[14:09]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Já, það er mikilvægt að forseti þingsins gæti jafnræðis í sínum ákvörðunum, þegar kemur að því að liðurinn um störf þingsins er alvanalegur. Þetta vita þingflokksformenn, þingflokksformaðurinn hv. þm. Birgir Ármannsson veit að ef hann ætlar að nafngreina einhvern annan þingmann og tala um verkefni hans í þinginu talar hann við hann fyrir fram og biður hann að koma í andsvar við sig undir liðnum um störf þingsins.

Þetta fékk ég staðfest á sínum tíma þegar ég lenti fyrst á þingi. Hv. þáverandi þingmaður, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þá þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, kom hingað upp og baðst afsökunar á sínum þingmönnum fyrir nákvæmlega þetta brot á meginreglu um að leyfa þingmönnum að bregðast við. Þetta gerði Svandís Svavarsdóttir líka, þá hv. þingflokksformaður Vinstri grænna. Ég veit að þetta er meginreglan í þinginu. Allir vita það og einkennilegt að forseti þingsins skuli ekki hafa brugðist við og á einhvern hátt bent þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins á það að hann skyldi hafa gert slíkt.