150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

brottfall ýmissa laga .

529. mál
[14:30]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti fyrir hönd efnahags- og viðskiptanefndar á þskj. 1115 um frumvarp til laga um brottfall ýmissa laga. Ég held að þetta sé gleðifrumvarp, enda nefndin einhuga í afgreiðslu sinni.

Með frumvarpinu er lagt til að á fjórða tug laga sem lokið hafa hlutverki sínu og ekki verður missir að falli brott úr lagasafninu. Um mat á áhrifum frumvarpsins segir í greinargerð með því að samþykkt þess hefði „þau ein áhrif að auka skýrleika lagasafnsins að því er varðar lög á verksviði fjármála- og efnahagsráðuneytisins“.

Nefndin telur jákvætt að ráðuneytið leggi sig fram um að auka skýrleika lagasafnsins með þessum hætti. Bendir nefndin í þessu samhengi á 23. gr. laga um breytingu á ýmsum lögum varðandi leyfisveitingar, þ.e. einföldun regluverks, sem nýlega var samþykkt á Alþingi þar sem 16 lög á sviði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins fengu að fjúka. Nefndin bendir enn fremur á frumvarp til laga um brottfall laga sem tvívegis hefur verið lagt fram, samanber nú síðast 180. mál á 149. löggjafarþingi, sem líta mætti til við frekara hreinsunarstarf.

Nefndin leggur því til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt og undir það rita hv. þingmenn, sá er hér stendur, Óli Björn Kárason, Brynjar Níelsson, Þorsteinn Víglundsson, Bryndís Haraldsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Smári McCarthy, Þorgrímur Sigmundsson og Willum Þór Þórsson.