150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

brottfall ýmissa laga .

529. mál
[14:32]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Eins og gefur að skilja styðjum við þetta mál. Ég verð eiginlega að nýta aðeins tækifærið og tala um lagahreinsun, það hvernig við birtum lögin og hvað við birtum af þeim. Þannig vill til, virðulegi forseti, að ég er tölvunörd. Ég leik mér mikið með gögn Alþingis. Svokölluð hliðargögn nota ég mjög mikið og sömuleiðis lagasafnið auðvitað, ekki bara til aflestrar heldur einnig til að forrita gagnvart.

Upp á síðkastið hef ég í dágóðan tíma verið að dunda mér við að taka lagasafnið og setja það í svokallað XML-snið sem er tölvulæsilegt snið og hægt er að forrita gagnvart. Við þá djörfu gjörð hef ég komist að því að í lagasafninu er ógrynni af hlutum sem mætti hreinsa til og laga. Mikið ósamræmi er milli þess hvernig kaflar eru skilgreindir, hvort þeir eru undirkaflar, flokkar eða enn annað. Sömuleiðis eru ákveðin eigindi textans sem er óljóst með öllu hvað eigi að þýða og hvernig þar af leiðandi eigi að fara með.

Ég er ekki nefna þetta bara til að gorta mig, kannski pínu en ekki bara. Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er sú að með því að gera lagasafnið og þingskjöl almennt tölvulæsileg væri hægt að auka skilvirkni að mínu mati þó nokkuð mikið. Ekki bara það, heldur væri líka hægt að gera t.d. fjölmiðlum og hagsmunaaðilum í samfélaginu kleift að fylgjast betur með fyrirhuguðum lagabreytingum og veita umsagnir fyrr. Einfaldasta dæmið sem mér hefur dottið í hug og ég hef nefnt er að hagsmunaaðili úti í bæ ætti að geta merkt við einhverja lagagrein, kafla, bálk eða hvaðeina í lögum sem viðkomandi aðili starfar mjög mikið eftir í sínu daglega starfi og gæti þá fengið að vita af því um leið og lagt er fram frumvarp sem hefur einhver áhrif á þann lagabálk. Þetta er forritunarlega séð mjög lítið mál ef — og einungis ef — gögnin, nefnilega lagasafnið og þingmálin, eru í tölvulæsilegu sniði. Með því að gera þetta, sem virðist kannski vera þurrt og leiðinlegt umræðuefni, er hægt að gera mjög sniðuga og gagnlega hluti.

Annað sem við þyrftum þá ekki að velta okkur upp úr er t.d. hvaða áhrif breytingartillögur við breytingartillögur við breytingarfrumvarp hefðu. Við fengjum sjálfkrafa svokölluð „track changes“ skjöl og við værum miklu fljótari að koma okkur inn í lagabreytingar sem hér eru fyrirhugaðar eða gerðar. Þá þarf ekki að nefna það heldur að uppfærslan á lagasafninu væri leikur einn og myndi gerast sjálfkrafa. Hún myndi gerast um leið og lög væru samþykkt á Alþingi, ekki þyrfti að bíða þessarar reglulegu uppfærslu sem er núna tvisvar, þrisvar á ári, enda oft viðamikið starf að uppfæra allan lagatextann á vef Alþingis.

Mig langar að nefna þetta hérna vegna þess að maður fær sjaldan tækifæri til að ræða þessi málefni, það hvernig lögin eru framsett og hvernig þau eru skipulögð. Ég held að þetta gleymist svolítið oft á Alþingi, bara af þeirri einföldu og eðlilegu ástæðu að langfæstir þingmenn hafa mikla innsýn í það hvað er nákvæmlega mögulegt að gera með tæknilausnum, að því gefnu að gögnin séu í lagi. Þegar allt kemur til alls er þetta líka einhvers konar bókasafnsfræði, geri ég ráð fyrir, eða a.m.k. einhvers konar gagnafræði sem fólk hefur almennt engan svakalegan áhuga á eða mjög ríka innsýn í. Þess heldur leynast þar tækifærin, virðulegi forseti, og mér fannst rétt að koma örstutt í ræðu og nefna þann vinkil lagasafnsins.