150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[15:36]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mínúta er ekki langur tími til að svara stórum spurningum. Val á verkefnum — af hverju er þetta ekki alveg opið og engin verkefni talin upp? Ástæðan er einfaldlega sú að það þótti eðlilegt að þingið kæmi að þessu með ákvörðun og að á hverjum tíma væri hægt að koma inn með breytingar við þessi lög, fjölga slíkum verkefnum eða fækka eftir atvikum. Það væri sem sagt ekki nóg að ákveða það í þingsályktun í samgönguáætlun og síðan væri ráðherra það bara í sjálfsvald sett á hverjum tíma. Það er sem sagt þingræðisleg ástæða fyrir því að tiltekin verkefni eru valin. Þessi verkefni eru síðan valin af því að í tímalínunni eru sum þeirra þannig að þau geta farið af stað um leið og frumvarpið er klárað. Þá verður hugsanlega hægt að bjóða þau út í lok þessa árs og koma framkvæmdum af stað. Vegagerðin hefur búið sig undir slíkt. Önnur eru svo sem dæmigerð verkefni sem hefur alltaf verið talað um, samanber Sundabraut og tvöföldun Hvalfjarðarganga. Minni verkefnin eru kannski val og uppfylla skilyrði um aðra leið, styttingu, umferðaröryggi og tímalínu. Varðandi síðan samspilið við samgöngursáttmálann þá eru þetta notendagjöld sem þú greiðir fyrir. Ábatinn verður vegfarandans og auðvitað framkvæmdaraðilans en það verður ábati fyrir vegfarandann að fara styttri og öruggari leið versus að fara gömlu leiðina. Í því felst ábati vegfarendans á hverjum tíma og hefur ekkert með verkefnin innan samgöngusáttmálans að gera í raun og veru. (Gripið fram í.) Það eru önnur verkefni.