150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[15:38]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að nota seinni mínútuna til að gera athugasemd við og varpa upp spurningum um orðalag í frumvarpinu þar sem talað er um að þeir borgi hlutfallslega mest sem noti mest. Ég skil að menn borgi mest sem nota mest en þetta með hlutfallslega á ég erfiðara með. Ég vísa nefnilega í umræðu um þessi mál á fyrri stigum þar sem talað var um að þeir sem nýttu mikið — og aftur er ég með í huga íbúa höfuðborgarsvæðisins sem keyra þær stóru götur sem verið er að taka gjald af, höfuðborgarsvæðisins útvíkkað — þá var nefnt á einhverjum tímapunkti að það væru jafnvel einhvers konar áskriftargjöld og að ferðamennirnir — og það er svolítið sérstakt að vera að tala um það á þessum tímum sem við lifum nú en þetta á nú að standa lengur — myndu einmitt borga þessi einskiptisgjöld ef svo má segja, þ.e. hærra. Þannig að ég er aðeins að velta fyrir mér því orðalagi að þeir borgi hlutfallslega mest sem nota mest.