150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[15:45]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Þetta er sérmál að því leytinu til að ekki er verið að horfa á það tekjumódel að finna aðra leið til þess að fá tekjur í vegaframkvæmdir. Þetta er ekki sérmál að því leytinu til að það er einmitt verið að tala um hvernig eigi að fjármagna vegaframkvæmdir. Það er hægt að gera með kílómetrastöðu þannig að allir sitji við sama borð. Við fjármögnum þannig vegaframkvæmdir á Íslandi. Það er því alveg möguleiki, vel inni í myndinni.

Hvað varðar þessar framkvæmdir sérstaklega þá getur fólk auðvitað verið ánægt með að taka ákveðin verkefni út fyrir sviga, þ.e. búið er að forgangsraða ákveðnum verkefnum í vegaframkvæmdum út frá forskrift og þau eru sum tekin út fyrir sviga og fjármögnuð. Málið er bara að það er ekki að öllu leyti. Það stendur hérna skýrt að einkaaðilar annist fjármögnun í heild eða að hluta. Þannig að ef ríkið annast fjármögnun að hluta hljóta þeir peningar á endanum að fara úr ríkissjóði, sem er sameiginlegur sjóður landsmanna, peningar sem annars gætu skilað sér í aðrar framkvæmdir. Það verður því að vera skýrt. Er hæstv. sveitarstjórnar- og samgönguráðherra að segja að það sem stendur hérna eigi ekki við? Eiga þessir einkaaðilar að fjármagna þetta í heild eða ætlar ríkið líka að fjármagna? Þá er þetta komið úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Ef þetta er (Forseti hringir.) Hvalfjarðarmódelið eru líklega margir landsmenn ánægðir með það. Ef þetta er aftur á móti Vaðlaheiðarmódelið eru mjög margir landsmenn virkilega mikið á móti því, að ríkisframkvæmd sé sett á fót (Forseti hringir.) og falin sem einkaframkvæmd.