150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[15:46]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég ítreki það þá er þetta Hvalfjarðargangamódelið. Þegar talað er um að hluta eða í heild þá hefur í þessum sex verkefnum verið horft til tveggja verkefna, þ.e. Hornafjarðarfljóts og Axar þar sem umferðin er minni. Þó að verkefnin séu smærri sé það góð hugmynd að ríkið fjármagni að hluta til til að viðhalda lágum gjöldum, til að viðhalda greiðsluvilja, til að koma framkvæmdinni af stað. Eftir sem áður passar hún jafn vel inn í þetta form, að hluta til fjármögnuð beint af samgönguáætlun, til að mynda 50% eða 40% eftir því hvað menn telja nauðsynlegt til að leggja af stað með, og fá síðan að þá aðila sem eru tilbúnir að fara í þá framkvæmd.

Ég vil bara nefna það að þegar menn fóru af stað með Hvalfjarðargangamódelið voru held ég yfir 70% sem ætluðu aldrei að aka þau. Þegar menn eru spurðir fyrir fram eru þeir oft mjög neikvæðir vegna þess að það eru ýmsir aðilar sem mála dökkar myndir. Þegar menn horfa hins vegar í baksýnisspegilinn segja þeir: Auðvitað hefði ég viljað þetta og ég hefði viljað fá miklu fleiri svona verkefni á undanförnum árum svo við sætum ekki uppi með alla þessa þörf en of lítið af peningum.