150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[15:48]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum að fjalla um frumvarp um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir. Ég rak augun í það að hægt verður að fela einkaaðila að innheimta vegtollsgjaldið. Við erum að tala um upphæðir rétt yfir 100 milljörðum, þetta eru 103–118 milljarðar til 30 ára. En við vitum ósköp vel — við höfum Vaðlaheiðargöngin, ekki sem fyrirmynd heldur sem víti til varnaðar um hvernig hlutirnir geta farið úr böndum — að opinberar framkvæmdir og ýmsar framkvæmdir fara úr böndum þannig að þetta gæti orðið margfalt meira. En ef þetta verður gert svona þá verða gjaldskyldir sex staðir á hringveginum, sex staðir þar sem verður gjald, kannski fimmhundruðkall á hverjum stað, við vitum það ekki, þrjúþúsundkall í allt. Verður þá hver aðili með innheimtu á hverjum stað? Hver er kostnaður við innheimtu? Það virðist vera á huldu.

Síðan er það hitt sem er merkilegt í þessu og stendur hérna hreinlega: „eðlilegan arð af fjárfestingunni sinni“. Hvað er eðlilegur arður? Hefur einhver fundið nákvæmlega út hvað er eðlilegt að fá í arð af svona fjárfestingu? Ég held ekki og þar af leiðandi verður um ófyrirsjáanlegan kostnað að ræða.

Við gleymum líka einu. Einstaklingur sem keyrir þennan veg og er með 300.000 kr. laun borgar þrjúþúsundkall í gjald. Svo kemur annar og keyrir sama veginn og borgar líka þrjúþúsundkall en hann er kannski með milljón í laun. Í sjálfu sér er hann að borga mun minna hlutfalli af tekjum sínum. Þeir eru báðir að nota sama veginn en samt borgar sá (Forseti hringir.) sem er á lágmarkslaunum stærri hluta af tekjum sínum í hann.