150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[15:56]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Frumvarpið er nokkuð opið og það telur upp hvaða ólíku þætti er verið að heimila Vegagerðinni að gera samning um. Er það einungis fjármögnunin eða er það fjármögnunin, hönnunin, framkvæmdin, reksturinn og viðhaldið? Það er líka talað um að heimilt sé að semja við einkaaðila um innheimtuna. En mér finnst eðlilegast og líklegast, og myndi sjálfur standa fyrir því, að Vegagerðin væri fyrir hönd ríkisins með það félag, innheimtufélagið. Það er þá óhagnaðardrifið félag sem sér bara um innheimtuna.

Af því að ég náði ekki að svara hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni þá hefur þróunin verið sú í Noregi að menn stefna á að innheimtukostnaðurinn fari niður fyrir 5%. Hann var miklu hærri þegar alls konar hagnaðardrifin félög stóðu fyrir þessu. Ég held að þetta sé mjög mikilvægt. Menn verða hins vegar að átta sig á því að ég tel alls ekkert útilokað í einhverjum verkefnum að menn setji slíka samvinnuhugsun á, að þetta sé gert á samfélagslegum grunni. En það þarf að taka áhættuna hjá félaginu sem fer í slíkt inn í þann kostnað. Spurningin er þá hvernig þessi skipting er. Menn þekkja það orðið mætavel í reynsluheimi nágrannaríkja okkar að gera svona samninga. Þess vegna nefndi ég áðan að það gæti verið skynsamlegt að bæta inn í frumvarpið heimild til Vegagerðarinnar um að hún geti tekið lán til að fara inn í framkvæmd reynist í samningum einkafjármagnið vera of dýrt. Til er slík fyrirmynd frá Danmörku, þar kom upp slíkt tilfelli.

Frumvarpið er því opið. Það er fyrst og fremst heimild til að fara í þessar framkvæmdir. Það er skilgreint við þessar sex framkvæmdir. Síðan er hægt að raða því saman hvernig menn búa til samningana í hverju og einu tilviki út af fyrir sig.