150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[16:24]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það sem ég kem til með að segja er svo sem lítið annað en spjall við hann. Ég vil leggja áherslu á það að þetta frumvarp er ekki listi einhverra fyrirskipaðra framkvæmda, það má ekki taka þannig og kannski gerir hv. þingmaður það ekki. Þetta er miklu meira heimild, opin könnun á því hvort þessi leið er fær í þessum sex verkefnum. Þau eru auðvitað misvæg. Hann nefndi Axarveg annars vegar og Ölfusárbrú, það er mjög gott dæmi um verkefni sem eru ólík vegna þess að í öðru tilvikinu, Axarvegi, er umferðin mun minni en um Ölfusárbrú og auðvitað erfiðara að koma þessu í framkvæmd svo vel sé.

Mig langar bara að benda á það að styttingin er nærri 70 km, 60–70 km stytting. Hvað gerir hún okkur? Nú er ég að tala um þessa 4 milljarða í fjárfestingu sem við skulum segja að komi til baka á 20 árum eða kannski 30 árum. Það eru loftslagsmálin, það eru ákveðin kjaramál vegna þess að þessir 70 km eru tveggja klukkustunda akstur liggur við, og þetta er byggðamál, það er mjög stíft óskað eftir þessu þarna. Það er ákveðið jafnræði sem verið er að búa til milli héraða á Austurlandi og hv. þingmaður nefndi sjálfur öryggismálin. 50–60 milljarðar á ári eru taldir felast í dauðaslysum og annars konar slysum, þannig að þetta skiptir okkur gríðarlegu máli. Munum það líka að bílunum mun fjölga þegar þessi vegur, sem er jú frekar leiðinlegur nú, er opnaður sem heilsársvegur. Ég held að þegar kemur að þessu í stóra samhenginu þá þurfum við ekki að hafa fyrir fram áhyggjur af því að þetta sé leið sem við getum ekki sammælst um að eigi að reyna.

Svo langar mig í seinna (Forseti hringir.) andsvari mínu að koma aðeins inn á kostnaðarhliðina hér.