150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[16:33]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Virðulegur forseti. Oft þegar ég fæ ný frumvörp í hendurnar byrja ég aftast og les mig fram í gegnum þau. Mér finnst það oft gagnlegast og þannig var það með þetta. Það sem ég skoðaði fyrst var kafli um tilefni og nauðsyn lagasetningar. Hvað stendur þar? Stendur þar að það sé nauðsynlegt að setja þessi lög vegna þess að ríkið geti ekki lagt vegi? Stendur þar að það verði að samþykkja þessi lög vegna þess að ríkið geti ekki grafið göng? Nei. Nauðsynin á þessari lagasetningu er sú hreintrúarstefna sem hefur ríkt í ríkisfjármálum, að ríkisstjórn hvers tíma sé svo bundin af lögum um opinber fjármál, og þeim excel-töfluviðmiðum sem þar birtast, að það megi ekki fara í kostnaðarsamar framkvæmdir þó að þær séu þjóðhagslega hagkvæmar, bara vegna þess að það passi ekki inn í excel-skjalið uppi í Arnarhvoli.

Ráðherranum til vorkunnar má kannski benda á að þetta frumvarp kom fram í mars og á þeim tíma sem er liðinn síðan — stundum er talað um að vika sé langur tími í pólitík en síðustu tveir mánuðir hafa verið heil eilífð. Á þessum tveimur mánuðum hafa viðmið laga um opinber fjármál fokið út í veður og vind þannig að nú áttar fólk sig á gildi þess að ríkið stígi inn og byggi upp sameiginlega grunninnviði fyrir opinbert fé, frekar en að beita bókhaldsbrellum til að komast fram hjá skuldaviðmiðum laga um opinber fjármál eins og þetta frumvarp snýst að mestu leyti um.

Þegar ég var búinn með þennan kafla fletti ég aðeins aftar í kaflann um mat á áhrifum. Þar var ég sérstaklega að höggva eftir mati á umhverfisáhrifum því að þetta eru stórar og miklar framkvæmdir sem hafa umhverfisáhrif eðli máls samkvæmt. Það er heldur þunnur þrettándi, sá hluti er afgreiddur með þessum orðum, með leyfi forseta:

„Í fyrsta lagi fylgir samgönguinnviðum ýmis ábati, svo sem í formi tímasparnaðar, minni umhverfisáhrifa, minnkað slit á innviðum og farartækjum auk aukins umferðaröryggis.“

„Minni umhverfisáhrifa“ er slengt fram um samgönguframkvæmdir almennt og þar með væntanlega allar þær sex sem fjallað er um í frumvarpinu. Það er reyndar alls ekki raunin alltaf og það er meira að segja hægt að taka sem dæmi um það eina af þeim framkvæmdum sem hér eru undir, þá stærstu eða allavega þá dýrustu, sem er Sundabraut. Sundabraut eykur umferð á höfuðborgarsvæðinu. Það er bara niðurstaða skýrslu sem ráðherra kynnti hér fyrir ári. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Um leið og Sundabraut eykur umferðarrýmd er hætt við að hún muni verða til þess að auka heildarumferð á höfuðborgarsvæðinu (í gegnum fyrirbærið „framboðsstýrða eftirspurn“, e. induced demand), draga úr hvata til breytinga á samgöngumáta og auka á neikvæð ytri áhrif umferðar, svo sem loftmengun.“

Við hljótum að staldra við þetta á tímum þar sem forsenda allra framkvæmda, sérstaklega forsenda samgönguframkvæmda, á að vera að minnka losun. Hérna stendur bara svart á hvítu að það gerist ekki með Sundabraut. Sundabraut mun ekki einu sinni minnka verulega umferðina um Ártúnsbrekku sem oftast er bent á sem kost þess að ráðast í þessa framkvæmd heldur taka umferð sem er að koma norðan að. Það verður jú styttra fyrir menn að keyra ofan af Akranesi til Reykjavíkur en fyrir fólkið sem býr uppi í Norðlingaholti. (Gripið fram í: Ég mun ekki keyra norður…) Reyndin er sú að borgarlína frá Suðurlandsbraut og upp í Ártúnshöfða hefur miklu meiri flutningsgetu en Sundabraut.

Þá er annar ókostur sem kemur fram í áðurnefndri skýrslu um Sundabraut sem er að ekki hefur farið fram greining á því hverju viðlíka umfangsmikil fjárfesting í öðrum samgöngukostum en Sundabraut geti skilað í formi ábata til samfélagsins af því að við erum ekki að tala um neitt smáræði. Við erum að tala um kostnað sem er metinn á bilinu 60–74 milljarðar í að reisa mannvirki sem eykur losun á sama tíma og við eigum að vera að minnka hana. En af hverju verður Sundabraut fyrir valinu þegar ekki eru sterk umhverfissjónarmið fyrir því, það eru ekki sterk sjónarmið hvað varðar greiðari umferð borið saman við aðra kosti? Jú, það kemur einmitt fram í skýrslunni og rataði í greinargerð með frumvarpinu. Ég ætla að lesa það, með leyfi forseta:

„Umfang verkefnisins og skýr afmörkun, sem og fyrirliggjandi mat á greiðsluvilja, gerir það að hentugum kosti til samvinnuverkefnis.“

Við erum allt í einu farin að forgangsraða samgönguúrbótum á grundvelli einhvers sem kemur samgöngum bara ekkert við, heldur bara á grundvelli þess hversu vel viðkomandi framkvæmd passar í eitthvert greiðslumódel, passar í eitthvert fjármögnunarmódel sem er til þess ætlað að komast fram hjá lögum um opinber fjármál sem eru vel að merkja ekkert annað en mannasetningar sem er lítið mál að víkja til hliðar ef þörf þykir.

Ég hélt lestrinum áfram, herra forseti, og velti fyrir mér hvers konar hagsmunamat liggi að baki svona frumvarpi. Eru það t.d. hagsmunir ríkisins eða okkar hér á Alþingi að búa til hjáleiðir af þessu tagi, sem eðli máls samkvæmt grafa undan samgönguáætlun sem stjórntæki til að velja næstu stóru samgönguframkvæmdir á grundvelli heildarhagsmuna en ekki greiðsluvilja og fjármögnunarmöguleika? Hvað með hagsmuni skattgreiðenda? Vegna þess að eins ótrúlega og það hljómar stendur hreinlega í greinargerð frumvarpsins að það sé dýrara að fara þessa leið að fara í þessar framkvæmdir. Þar segir, með leyfi forseta:

„Reynslan í Evrópu hefur verið sú að vegna tilfærslu á áhættu og hærri fjármagnskostnaðar einkaaðila hafa samvinnuverkefni kostað 20–30% meira en verkefni sem hafa verið fjármögnuð með hefðbundinni aðferð.“

Hafa skattgreiðendur ekkert um það að segja hvort þeir borgi fjórðungi meira fyrir vegina sem þeir að keyra en þeir þyrftu að gera ef þeir væru einfaldlega greiddir úr sameiginlegum sjóðum?

Hér hefur verið vísað í Hvalfjarðarmódelið sem fordæmi og kannski ekki um langan veg að leita þar sem tvöföldun Hvalfjarðarganga er bókstaflega ein af tillögum frumvarpsins. Hvalfjarðarmódelið er ekkert óumdeilt. Ofan á þá niðurstöðu sem kom fram hjá Ríkisendurskoðun að framkvæmdin hefði ekki verið ódýrari með því að fara í gegnum það módel en hún hefði verið í höndum ríkisins, þá kostaði á rekstrartíma Spalar heilan milljarð að rukka í gegnum Hvalfjarðargöngin og hundruð milljóna runnu í arð til eigenda sem voru sem betur fer að stærstum hluta opinberir aðilar, en líka einkaaðilar og fjárfestar sem náðu þar að maka krókinn. Svo vill ráðherra fyrir alla muni að við köllum þetta ekki Vaðlaheiðarmódelið og ég held að það helgist kannski af því að við erum ekki endilega sammála um hvað felst í því orði. Þegar ég lít á Vaðlaheiði og þá framkvæmd sem módel þá sé ég framkvæmd sem er sett fram undir því yfirskyni að hún sé í höndum einkaaðila en er í rauninni þegar upp er staðið ríkisframkvæmd vegna þess að hún er ekki nógu arðbær til að einkaaðilar geti staðið straum af henni. Ég er óttalega hræddur um að það verði reyndin með smærri framkvæmdirnar í þessu frumvarpi sem var bætt inn í ráðuneytinu eftir að starfshópur um þetta módel skilaði af sér. Það verður væntanlega skoðað í nefnd.

En svo er líka heildarmynd hérna sem við þurfum kannski að staldra við, sem er annars vegar þessi uppgjöf fyrir því að grunninnviði eigi bara að byggja út frá heildarhagsmunum en ekki því hvort hægt sé að rukka í gegnum þá eða ekki, hvort lög um opinber fjármál eigi að ráða forgangsröðun í samgöngumálum. Og síðan kannski að staldra aðeins við vegna þess að á þeim tveimur mánuðum sem eru liðnir síðan frumvarpið leit dagsins ljós hefur ólíklegasta fólk talað um að við stöndum á tímamótum og fram undan sé Ísland 2,0 eins og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra komst að orði. Við þurfum að spyrja okkur hvort þær framkvæmdir sem við ráðumst í í dag séu í þágu framtíðarinnar. Að vissu leyti, vegna þess hvernig mál hafa þróast á síðustu vikum, er þetta frumvarp strax orðið arfur fortíðar. Það er samið innan þessarar þröngu hugmyndafræði um opinber fjármál sem er að verða gjaldþrota þessa dagana, þegar almenn sátt virðist vera að nást um mikilvægi þess að ríkið standi að grunninnviðum samfélagsins. Það leggur áherslu á gráar fjárfestingar án umhverfismats þegar grænni fjárfestingar og betri eru á hverju strái. Það væri alveg hægt að fjárfesta í hjólahraðbrautum, byrja að skoða lestarsamgöngur út á land, stór hjólastæðahús og að niðurgreiða skipti úr bensínbíl yfir í rafmagnshjól og hvað það nú er.

En þessa frumvarpssmíð þarf að skoða mjög vandlega í nefnd ef eitthvað á að vera hægt að vinna með þetta.