150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[16:49]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður varð hissa þegar ég fór að tala um umhverfismat í tengslum við þetta mál en það vill svo til að 6. kafli greinargerðar heitir Mat á áhrifum. Þar undir fellur umhverfismat á áhrifum frumvarpsins og þess sem í því er og þó að þar þurfi ekki að meta hvern krók og kima á öllum þeim framkvæmdum sem um ræðir þá snýst þetta um stóru myndina. Stóra myndin — þegar stærsta framkvæmdin, eins og hún hefur verið formuð, m.a. í þessari skýrslu ríkisins um Sundabraut — er grá. Það hefur ekki verið unnið með Sundabraut á þann hátt sem er líklegur til að draga úr losun á höfuðborgarsvæðinu og vegna þess kom mér verulega á óvart að Sundabrautin væri sett inn í þetta samkomulag á milli ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. En það endurspeglar kannski bara hvað sveltistefnan varðandi framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu og allir tafaleikir varðandi uppbyggingu borgarlínu er búið að gera sveitarfélögin á þessu svæði langeyg og liggur við að segja örvæntingarfull að fá þó einhverjar úrbætur að þau séu tilbúin að kyngja þeirri súru pillu að Sundabraut hangi þar með.