150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[17:32]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við fjöllum um brýnt og gott mál sem er samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir. Ég fagna því að við séum farin að taka til við hin hefðbundnu þingstörf og komin aftur með starfsáætlun. Þetta er eitt af þeim málum sem ég taldi brýnt fyrir svokallaða Covid-krísu og held að sé enn brýnna en áður ef eitthvað er, þannig að ég fagna því.

Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að ég aðhyllist það að leita eftir samstarfi við einkaaðila og ef þarf veggjöld til að komast í brýnar framkvæmdir leggst ég ekki gegn þeim. En auðvitað þarf að vera utan um þetta skýr og góður rammi. Ég mælist ekki til þess að auka skattheimtu á almenning en við skulum líka horfa til þess að við þurfum að huga að framtíðinni í þeim efnum og hver er besta leiðin til framtíðar til að afla tekna fyrir vegakerfið okkar sem er okkur öllum svo mikilvægt?

Ég get eiginlega ekki komið hingað upp og rætt um samgöngumál öðruvísi en að minna okkur öll á þá staðreynd að á síðustu árum hefur fjármagn til nýframkvæmda varla sést á höfuðborgarsvæðinu. Ég vísa þá í svar sem hæstv. samgönguráðherra gaf mér fyrir einu þingi síðan, að ég held, þar sem kom í ljós að 16% af fjármagni til nýframkvæmda höfðu farið til höfuðborgarsvæðisins þar sem um 70% íbúa búa og nærri allir ferðamenn fara í gegn. Með því er ég auðvitað ekki að segja að ekki séu brýn verkefni og nýframkvæmdir úti á landi sem við höfum ráðist í og þurfum enn þá að ráðast í, en það er engu að síður mikilvægt að halda þessari staðreynd til haga. Þeim mun mikilvægara er að huga að samstarfi við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og ég veit að við förum í það aðeins á eftir þegar fjármálaráðherra mælir fyrir frumvarpi sínu.

Það eru tækifæri fólgin í því að hugsa um samstarf við einkaaðila þegar kemur að vegaframkvæmdum. Mig langar að nefna eitt dæmi sem ég þekki ágætlega úr minni sveit, Mosfellsbænum, þar sem einkaaðilar sem áttu land, bæði Leirvogstungumela og Leirvogstunguhverfi á sínum tíma, þrýstu mikið á Vegagerðina ásamt Mosfellsbæ að fara í mislæg gatnamót við Vesturlandsveg. Það var ekki á áætlun hjá Vegagerðinni og ekki hafði fundist fjármagn á þeim tímum til að fara í þá framkvæmd en þeir aðilar tóku að sér að fara í framkvæmdina með samningi við Vegagerðina sem greiddi hana til baka á einhverjum árum. Þessir aðilar fundu líka hagkvæmari og umhverfisvænni leið til að fara í framkvæmdina. Ég held því að það sé mikið til þess unnið að vinna með aðilum, einkaaðilum og sérfræðingum, þegar kemur að því að sjá hvort þarna úti kunni að vera hugmyndir að því að gera hlutina kannski einfaldari, umhverfisvænni, ódýrari og hagkvæmari.

Mig langar í því samhengi að minnast sérstaklega á Sundabraut. Þannig er mál með vexti að ég er með tilbúna þingsályktunartillögu í þinginu sem ég hef ekki enn þá lagt fram. Ég ætla aðeins að sjá hvernig þessu ágæta frumvarpi hér reiðir af áður en ég fer í það, en tillagan er kannski ekki síst til þess að lýsa pólitískum skoðunum þeirrar sem hér stendur varðandi þá framkvæmd. Ég er nefnilega á þeirri skoðun að Sundabraut sé líklega hagkvæmasta en jafnframt dýrasta vegaframkvæmd sem hægt er að fara í á landinu öllu en hún er kannski ekki sú brýnasta þegar við þurfum að forgangsraða fjölda verkefna. Þess vegna er ég á þeirri skoðun að það að taka Sundabrautina bara alfarið í einkaframtak kunni að vera góð lausn. Því gengur þingsályktunartillagan sem ég hyggst mögulega leggja fram, við sjáum hvernig þetta frumvarp fer, út á það að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að undirbúa og leggja fram frumvarp um lagningu Sundabrautar í einkaframkvæmd.

Ég ætla að lesa hluta af greinargerðinni sem ég skrifa með tillögunni en þar segir að Sundabraut sé einn dýrasti einstaki raunhæfi framkvæmdamöguleikinn sem til skoðunar er í vegakerfinu á Íslandi. Þrátt fyrir mikla aukningu í framlögum til nýframkvæmda á síðustu árum er ljóst að ef Sundabrautin ætti að fjármagnast með þeim hætti þyrfti annaðhvort að auka umtalsvert opinber fjárlög til nýframkvæmda eða minnka mjög á öðrum stöðum. Þess vegna teljum við sem þessa þingsályktunartillögu höfum unnið byggingu Sundabrautar vera ákjósanlegt verkefni í einkaframkvæmd og höfum því ætlað að fela samgönguráðherra að skoða þá leið. Við erum í rauninni að tala um einkaframkvæmd að öllu leyti, þ.e. undirbúning, fjármögnun og framkvæmd svo og reksturinn um ákveðinn tíma með innheimtu veggjalda en að þeim tíma liðnum myndi ríkið taka yfir veghald á Sundabrautinni.

Ég hygg að þetta sé mikilvæg tenging. Ég held að Sundabrautin sé mjög mikilvæg tenging við gatnakerfi höfuðborgarsvæðisins. Í henni felst bætt tenging við Grafarvogshverfi, við gatnakerfi borgarinnar og töluvert myndi draga úr álagi um Ártúnsbrekku þar sem álagið er óásættanlegt á helstu álagstímum. Þá vil ég líka ítreka að það er mikilvægt almannavarnamál að fjölga tengingum út úr borginni, auk þess sem Sundabrautin myndi stytta vegalengd milli Kjalarness og miðborgar og bæta umferðaraðgengi frá Vestur- og Norðurlandi að borginni. Að sjálfsögðu myndi Sundabrautin líka létta töluvert á umferð um Vesturlandsveg í gegnum Mosfellsbæ.

Ég ákvað að koma hingað upp og nefna þetta sérstaklega. Sundabrautin er auðvitað ein af þeim framkvæmdum sem tilgreindar eru í þessu frumvarpi. Ég held að mikilvægt sé að þetta frumvarp fái hraða og skjóta framgöngu í umhverfis- og samgöngunefnd. Ég vonast til þess að um frumvarpið skapist sátt svo hægt sé að hefjast handa við enn frekari umbætur í samgöngukerfinu okkar, því að eins og öllum í þessum sal er ljóst höfum við aukið gríðarlega fjármagn til samgöngumála á síðustu árum en það er einfaldlega þannig að við þurfum að gera enn meira. Sú leið sem er lýst í frumvarpinu er ein leið til þess. Ég nefni sérstaklega Sundabrautina og mér finnst kappsmál að kanna hvort ekki séu áhugasamir aðilar þarna úti sem vilja hreinlega taka að sér verkið og framkvæma það og auðvitað njóta þá þess ágóða sem af því kann að verða um einhvern tíma, en á endanum held ég að ágóðinn yrði fyrir okkur öll.