150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[17:43]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og hv. þm. kemur inn á hefur Sundabraut lengi verið í kortunum. Hún hefur sem sagt verið á aðalskipulagi lengur en sú sem hér stendur hefur verið á þessari jörð. Ég held að hún hafi ratað inn á aðalskipulag árið 1975 og hefur verið þar allar götur síðan með aðeins breyttri mynd. Það er kannski ekki síst þess vegna sem ég er að tala fyrir algerri einkaframkvæmd með þetta verkefni vegna þess að átök hafa verið um það hvar hún á nákvæmlega að liggja, hvaða tækni á nota og svo hefur auðvitað þekkingu og tækniþróun fleygt fram á þessum tíma. Þess vegna held ég að tækifæri sé í því að sjá hvort einhver hafi áhuga á að fara í þessa framkvæmd og sé með lausnina frá A til Ö og reksturinn og fjármagnið og allt saman.

Ég er alls ekki að segja að opinberir starfsmenn séu ekki stöðugt að huga að hagkvæmni og ég held að það sé mjög mikilvægt að nýsköpun spretti líka upp innan hins opinbera, bara alger forsenda fyrir því að við ætlum að láta okkar kerfi ganga, að þar sé fólk á tánum hvað það varðar og þar sé öflug nýsköpun. En það sem ég er að tala fyrir er að það eru jafnvel enn meiri tækifæri þegar við notum blandaðar leiðir og leitum líka til einkaaðila. Það er bara oft þannig að öðruvísi hugmyndir vakna þar þegar fólk á beina fjárhagslega hagsmuni undir.

Hvað þessa forgangsröðun varðar, það er vandamálið eða verkefnið sem við stöndum frammi fyrir. Við erum hér tiltölulega fá á þessu stóra og mikla landi og eigum ofboðslega stórt og mikið vegakerfi og öryggið er auðvitað fyrsti þátturinn. Svo koma umhverfishliðarnar og svo er byggðastefnan þannig að allir þessir þættir eru undir. Það er þess vegna sem þetta mikilvæga verkefni, Sundabraut, hefur ekki komist ofar á listann en þó þetta sem hér er, vegna þess hversu fjárfrek sú framkvæmd er og það eru svo margar aðrar sem við getum fært rök fyrir að séu jafnvel enn brýnni, þannig að það er bara verkefni sem við sitjum uppi með hér í þessum þingsal.