150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[18:26]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir hugleiðingar hans um þetta málefni. Þetta er alveg hárrétt og skemmtilegar hugleiðingar um forgangsröðunina. Hver er forgangsröðunin? Ef við horfum bara á þessar sex framkvæmdir þá tel ég mest áríðandi, og ég held að flestir gætu verið sammála því, að fara mjög hratt í Sundabrautina, ég tel það vera. Hún er samt lengst í burtu frá okkur í tíma og örugglega lengst af öllum þessum sex framkvæmdum þannig að forgangsröðunin er kannski ekki lögð út frá þeirri hugmynd hver nýtist okkur best, hvar þörfin er mest, hvar er mesta umferðin, hvar eru flest slysin o.s.frv. Það er ekki það. Það er í fyrsta lagi einhvers konar pólitískt reiptog, í öðru lagi einhver vinnubrögð sem gengur illa að koma í framkvæmd eins og með Sundabrautina; hvar hún á að vera, á hún að vera þarna eða hérna, undir eða yfir o.s.frv. Það veldur vandræðunum á meðan aðrar framkvæmdir eru kannski einfaldari og óumdeildari. Þær komast þá framar á forgangslistann.

Þessar hugleiðingar hv. þingmanns eru fyllilega réttmætar og ég fagna þeim og kem kannski frekar að þeim í seinna andsvari mínu. En ég myndi halda, t.d. með brúna yfir Ölfusá sem ég fagna auðvitað mjög, ekki síður en hæstv. samgönguráðherra, að hún er kannski komin meira í augsýn en Sundabrautin. Ég fagna því að hún komist á koppinn enda er núverandi brú farartálmi.