150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[18:33]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Frú forseti. Þetta hafa verið áhugaverðar umræður um umdeilt mál eins og komið hefur fram hjá þingmönnum sem hafa einmitt lagt áherslu á að það er kannski ekki alveg rétti tíminn til þess að koma fram með mál af þessum toga núna þegar við glímum við veirufaraldurinn og mikilvæg mál í tengslum við hann. Það skýtur því svolítið skökku við að mínum dómi að koma með mál sem er svo umdeilt og er ekki samstaða meðal þjóðarinnar um, varðar gjaldtöku og aukna skattheimtu sem er kannski eitthvað sem almenningur í landinu þarf ekki á að halda nú á þessum erfiðu tímum, tímum atvinnuleysis og þegar fjölskyldur hafa minna milli handanna.

Þetta frumvarp heimilar Vegagerðinni að gera samning við einkaaðila um svokölluð samvinnuverkefni um ákveðnar samgönguframkvæmdir. Hér er því í raun og veru verið að einkavæða einstaka vegspotta, ef svo má að orði komast, eða vegarkafla. Mér finnst persónulega eðlilegt að kalla þetta bara einkafjármögnun samgönguverkefna. Mér finnst samvinnuverkefni ekki eiga beint við, þetta er bara einkaframkvæmd og ríkið kemur síðan til með að þurfa að borga fyrir það á endanum og um það snýst málið. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið sérstaklega áhugasamur um þetta og hér hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins lýst ánægju sinni með frumvarpið og þeir hafa verið sérstaklega áhugasamir um aðkomu einkaframtaksins að samgöngumannvirkjum og auk þess hafa ýmis hagsmunasamtök, fyrirtæki og fjárfestar kallað mjög eftir aðkomu einkaaðila að innviðauppbyggingu undanfarin ár og þá sérstaklega í samgöngugeiranum.

Frú forseti. Að sjálfsögðu hefur einkaframtakið margt gott fram að færa á ýmsum sviðum og ég lít ekki svo á að verið sé að tala það sérstaklega niður. Þetta er svolítil spurning um pólitík og hvar menn standa í þeim efnum og hvernig þeir sjá fyrir sér mikilvægar framkvæmdir í framtíðinni hvað þetta varðar. Það hefur að sjálfsögðu vakið athygli að hæstv. samgönguráðherra sem flytur þetta mál í þinginu var eindregið á móti þessari leið, að mig minnir, þegar hann settist í stól samgönguráðherra, þó að útfærslan sé kannski aðeins breytt frá því sem upphaflega stóð til. Hér er lagt upp með að menn hafi valkost sem var kannski ekki í upphafi.

Það eru til dæmi um að samvinnuverkefni hafi heppnast vel en stundum er þetta lítið annað en falin lántaka í raun og veru þar sem hið opinbera er að takast á herðar umtalsverðar langtímafjárskuldbindingar gagnvart einkafyrirtækjum. Það verður að hafa í huga og fram hefur komið hér að fjármagnskostnaður einkaaðila er jafnan hærri en fjármagnskostnaðar ríkisins. Þess vegna er oftast hagkvæmara að ríkið fjármagni framkvæmdir með hefðbundnum hætti en að einkaaðilar geri það með óhagstæðari lánum. Á þetta hefur verið bent. Evrópusambandið hefur látið skoða þetta sérstaklega og endurskoðendur á þeirra vegum hafa gert rannsóknir á samvinnuverkefnum við einkaaðila, m.a. á vegaframkvæmdum, og komist að þeirri niðurstöðu að þetta fyrirkomulag hafi ekki reynst vel. Það finnst mér vera svolítið atriði í þessari umræðu, að horfa til þeirra sem þekkja þetta mjög vel og hafa rannsakað það og við eigum náttúrlega að læra af því. Hér eru stjórnmálaflokkar á þingi og þingmenn sem horfa mjög til Evrópusambandsins með ýmislegt sem þeir telja vera af hinu góða og ég myndi segja að þarna sé eitthvað sem bendi eindregið til þess að þetta sé ekki eins vænleg leið og menn halda og það eigi að sjálfsögðu að skoða það. Gallarnir eru margvíslegir samkvæmt mati þeirra og ábatinn takmarkaður að sama skapi.

Í Bretlandi hefur verið ofuráhersla á samvinnuverkefni, þessa einkavæðingu á innviðum, og því miður er sú leið þyrnum stráð. Forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, gekk svo langt að kalla slík verkefni í raun og veru þjófnað og átti við þann gríðarlega kostnað sem þau hafa haft í för með sér gagnvart skattgreiðendum og síðan hefur viðhaldi og öðru slíku verið ábótavant þegar einkaframtakið hefur lagt áherslu á sem mesta arðsemi. Við þekkjum það heima hvernig kostnaðurinn við Vaðlaheiðargöng fór verulega fram úr áætlunum þannig að það eru dæmi þess héðan líka að kostnaður hafi farið upp úr öllu valdi.

Í greinargerð frumvarpsins kemur ýmislegt fram sem vert er að staldra við. Í fyrsta lagi er aukin aðkoma einkaaðila réttlætt sérstaklega á þann veg að það sé nauðsynlegt vegna laga um opinber fjármál eða fjármálareglna og í raun sé ekki annað í boði. Þetta kalli á samvinnuverkefni í stað hefðbundinna innviðafjárfestinga sem ríkissjóður stendur straum af. Það má því í raun segja að samkvæmt þessu ráði ekki beint hagkvæmnissjónarmið för heldur sé verið að tryggja sérstaklega að kostnaður af samgöngumannvirkjum falli utan bókhalds ríkisins og rúmist þannig innan laga um opinber fjármál. Þetta er mjög athyglisverð nálgun sem mér finnst að sé ekki nægilega mikill gaumur gefinn. Þetta er athyglisvert í ljósi þess, eins og ég sagði, að Evrópusambandið hefur varað sérstaklega við þeirri nálgun að velja samvinnuverkefni fram yfir aðra kosti vegna einhverra bókhaldssjónarmiða. Hitt er ekki síður athyglisvert að í greinargerð frumvarpsins er beinlínis viðurkennt að reynslan í Evrópu hafi verið sú að vegna tilfærslu á áhættu og hærri fjármagnskostnaðar einkaaðila hafa samvinnuverkefnin kostað 20–30% meira en verkefni sem hafa verið fjármögnuð með hefðbundinni aðferð.

Vissulega er mikilvægt að ráðast í þau samgönguverkefni sem tilgreind eru í frumvarpinu og allt eru þetta góð verkefni eins og hringvegur norðaustan Selfoss, brú á Ölfusá, hringvegur um Hornafjarðarfljót, Axarvegur, tvöföldun Hvalfjarðarganga, hringvegur um Mýrdal og jarðgöng í Reynisfjalli og Sundabraut. Allt eru þetta mikilvæg verkefni sem við hefðum að sjálfsögðu viljað sjá komast í gagnið sem fyrst, en spurningin er þessi: Eru skattgreiðendur tilbúnir að borga allt að 30% meira fyrir það að fara þessa leið? Ég held að það sé bara mjög eðlileg og sanngjörn spurning.

Ríkisstjórnin virðist ganga út frá því sem heilögum sannleika að hið opinbera sé þunglamalegt og óskilvirkt þegar kemur að framkvæmdum en einkageirinn meira sveigjanlegur og skapandi. Þá spyr maður: Eru það skilaboð ríkisstjórnarinnar til t.d. Vegagerðarinnar og þess ágæta fólks sem þar starfar?

Í skýrslu endurskoðenda Evrópusambandsins, sem ég minntist á, um framkvæmdir af þessum toga er rakið hvernig miklar tafir urðu jafnan á þessum samvinnuframkvæmdum, samkeppni var lítil, þ.e. þátttaka í útboðum, og kostnaður fór mjög fram úr áætlunum. Maður spyr hvort einhver ástæða sé til að ætla að þetta eigi að heppnast eitthvað betur hér á landi. Tilgangurinn er náttúrlega að auka m.a. verulega fjármagn til vegaframkvæmda og við erum öll sammála um að það er nauðsynlegt, en spurningin er: Er þetta rétta leiðin? Það þarf að skoða mjög nákvæmlega í störfum nefndarinnar og horfa sérstaklega til þess að dæmin sýna að meiri fjármunum er varið í þessi verkefni sérstaklega. Þau virðast vera dýrari. Við vitum öll að mikil þörf er fyrir fjárfestingar í samgöngum og þörf fyrir að bæta umferðaröryggi og stytta og bæta vegtengingar o.s.frv. Við erum sammála um það allt saman og að sjálfsögðu eru öll þessi verkefni í frumvarpinu mikilvæg. Hver vill ekki aka um nýja Ölfusárbrú og nýjan Axarveg og í gegnum Reynisfjall o.s.frv.? En spurningin er: Eru vegfarendur tilbúnir að greiða það gjald sem þar verður sett upp? Hvert verður gjaldið? Mönnum hefur þótt gjaldið í gegnum Vaðlaheiðargöng vera hátt.

Í frumvarpinu kemur einnig fram að þeir sem aka um mannvirki án þess að greiða fyrir það megi eiga það á hættu að tekið sé veð í ökutækjum þeirra. Hv. þm. Karl Gauti Hjaltason fór ágætlega yfir það áðan að fara þarf mjög vandlega yfir þetta í störfum nefndarinnar. Þarna eru víðtækar heimildir og þessi veð ganga framar öllum öðrum skuldbindingum sem hvíla á viðkomandi ökutæki nema gjöldum í ríkissjóð. Þá yrði hægt að krefjast nauðungarsölu á ökutækinu án undangengins dóms, verði skuldin ekki greidd. Þarna eru víðtækar heimildir sem maður setur fyrirvara við og þarf að fara vandlega yfir. Allt kemur þetta náttúrlega til með að kosta ríkissjóð fjármuni, innheimtan og allt sem því fylgir.

Hæstv. ráðherra sagði í framsöguræðu sinni, að mig minnir, að verið sé að setja upp kerfi sem virkar. Gott og vel. Að sjálfsögðu geta einkaaðilar staðið fyrir framkvæmdum og verkefnum í samgöngumálum. Ég tek undir það og við höfum gott dæmi um það, þ.e. Hvalfjarðargöng, og ég ætla alls ekki að gera lítið úr því. En þetta er bara spurning um þessa leið. Erum við tilbúin að greiða 20–30% hærra verð fyrir leið sem er búið að sýna fram á með rannsóknum í Evrópusambandinu, við höfum dæmi frá Bretlandi og við höfum dæmi hér á Íslandi, eins og t.d. Vaðlaheiðargöng, þar sem hlutirnir fara langt fram úr öllum áætlunum? Þessa þætti þarf að fara mjög vandlega yfir að mínum dómi í störfum nefndarinnar, frú forseti. Ég legg ríka áherslu á það.

Við í Miðflokknum höfum, eins og hefur komið fram, lagt áherslu á að veggjaldaleiðin sé ekki fær nema lækkuð verði önnur gjöld á móti á bifreiðaeigendur, sem eru orðin allt of há hér á landi að mínum dómi. Hér er verið að breyta aðeins um kúrs og nú er lögð áhersla á að viðkomandi geti farið aðra leið, hafi valkost. Þá kemur maður að umferðarörygginu og hvort þeim valkosti sem er ekki gjaldtaka á verði jafn vel við haldið varðandi snjómokstur og annað slíkt. Nú veit ég t.d. að reynslan hvað Vaðlaheiðargöngin varðar er sú að dregið hefur verið úr snjómokstri, þeim öryggisþætti, fyrir þá sem ekki fara göngin Þetta eru allt hlutir sem þarf að fara vandlega yfir og velta upp öllum möguleikum og hvernig þetta gæti þróast vegna þess að við höfum bara dæmi sem sýna að það geti beinlínis verið hættulegra að velja þann kost sem er verið að bjóða upp á sem ekki er gjaldtaka fyrir. (Forseti hringir.) En að þessu sögðu, frú forseti, vænti ég þess að farið verði vandlega yfir alla þessa þætti í störfum nefndarinnar.