150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[20:18]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra framsöguna. Hér er undir stórt og mikið mál sem getur tengst langt inn í framtíðina. Það kom til umræðu hér í þinginu fyrir nokkrum mánuðum, samkomulagið um höfuðborgarsvæðið, og eftir því sem ég skildi á fulltrúum ríkisstjórnarinnar er forsenda allra aðgerða samþykkt fjárlaga hverju sinni. Spurningin til hæstv. ráðherra er: Lítur hann ekki örugglega enn svo á að samþykkt fjárlaga stýri fjárveitingum til þessa samkomulags eða fyrirtækis því tengdu?

Að því sögðu langar mig að nefna hér tvær málsgreinar úr samkomulaginu sjálfu. Í fyrsta lagi segir hér, með leyfi forseta:

„Undirritun af hálfu ríkisins er með fyrirvara um að Alþingi samþykki þær lagabreytingar sem samkomulagið kveður á um.“

Í liðnum á undan segir:

„Jafnframt mun fjármála- og efnahagsráðherra gera ráð fyrir fjárskuldbindingum samkomulags þessa í fjármálaáætlun og frumvörpum að fjárlögum hvers árs.“

Lítur hæstv. ráðherra þannig á að hann sé strax í samkomulaginu búinn að skuldbinda sig til að leggja fram þessar tillögur í fjárlögum hvers árs?

Hin spurningin sem mig langar að koma að, með leyfi forseta, varðar það sem stendur í frumvarpinu sjálfu:

„Raskist forsendur uppbyggingarinnar þannig að ekki verður unnt að fjármagna verkefni samkvæmt framkvæmda- og fjárstreymisáætlun sem er í viðauka við sáttmálann er gert ráð fyrir að aðilar samkomulagsins taki upp viðræður eins og fljótt og kostur er um hvernig við skuli bregðist þannig að tryggt verði að framkvæmdir verði unnar í samræmi við framkvæmdaáætlun.“

Niðurstaða samningaviðræðnanna virðist vera römmuð inn á þann máta að hún eigi að fylgja framkvæmdaáætluninni. Framkvæmdaáætlun er viðauki II í þessu máli þannig að ég er hræddur um að svigrúm Alþingis hverju sinni sé mjög takmarkað eins og frumvarpið liggur.