150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[20:23]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra svarið. Mér þykir samningsstaða fulltrúa ríkisstjórnarinnar til næstu 15 ára heldur þröngt innrömmuð þarna í síðustu málsgrein 3. gr. greinargerðarinnar, en látum það liggja á milli hluta.

Þriðja atriðið sem mig langaði til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra um við þetta tækifæri er 7. gr. frumvarpsins sem fjallar um Keldnaland og yfirtöku þessa hlutafélags á Keldnalandi, eins og segir hér, með leyfi forseta:

„Félagið skal annast þróun landsins í samvinnu við skipulagsyfirvöld með það að markmiði að hámarka virði landsins og uppbyggingarmöguleika þess eins og kostur er.“

Ég verð að segja fyrir mig að mér þykir það dálítið sérstakt að verið sé að stofna einhvers konar fasteignaþróunarfélag ríkisins. Við eigum auðvitað Kadeco og mögulega einhver önnur þó að ég kveiki ekki á þeim í fljótu bragði. Ég hefði seint trúað því að það yrði niðurstaða ársins 2020 að ríkið stofnaði nýtt fasteignaþróunarfélag um þróun verðmætrar landspildu. En spurningin til ráðherra er í raun sú hvort það hafi komið til sérstakrar skoðunar að losa verðmæti þessara eigna ríkisins með öðrum hætti en að setja þær inn í fasteignaþróunarfélag eins og þarna er mælt fyrir um.