150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[20:30]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki fullyrt neitt um það. Það væri mikill kostur að geta útkljáð þetta atriði á þessu kjörtímabili. Ég sé þetta gerast þannig að eftir að félaginu hefur verið komið á fót og því skipuð stjórn hefjist af auknum krafti vinna við að skoða slíkar fjármögnunarleiðir. Samhliða þarf auðvitað að ljúka vinnunni sem ég hef verið að vísa til hérna um orkuskiptin, um framtíðarfyrirkomulag á eldsneyti og ökutækjum. Ég get bara látið það fljóta með hér að ég hef séð fyrir mér að við getum leyft okkur að vera dálítið metnaðarfull í þeirri tilteknu vinnu. Mér finnst ekki alveg útilokað að við myndum hreinlega fara í útboð um ráðgjöf til að þróa framtíðargjaldtökukerfi fyrir bæði eldsneyti og ökutæki og í því sambandi jafnvel alþjóðlegt útboð og segja bara: Við höfum hér á þessu landi mikinn metnað til þess að fara af miklum krafti í orkuskiptin. Við tökum eftir því að engin þjóð hefur fundið framtíðarlausnina á þessu máli. Við höfum ofboðslega mikil tækifæri hér vegna þess að við getum verið okkur sjálfbær um orkugjafann, hinn nýja orkugjafa sem mun drífa áfram samgöngur í landinu. Það er ekki útilokað að við gætum virkjað einhverja nýja krafta, hleypt nýjum hugmyndum að með því að kalla eftir ráðgjöf alþjóðlegra aðila í samvinnu við innlenda — og þá meina ég sjálfstæða innlenda aðila og embættismenn og alla — til að þróa það kerfi. Eftir því hvernig þessari vinnu lýkur ræðst það hvenær frumvarp um möguleg flýtigjöld fæðist og er tímabært að afgreiða hér á þinginu.