150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[21:02]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð nú að viðurkenna að mér fannst ræða hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar bara nokkuð skemmtileg vegna þess að ég hef húmor fyrir kaldhæðni. En ég verð að viðurkenna, og nú vil ég vera persónulegum nótum, að það særir mig alltaf í umræðunni um þessi mál þegar borgarlínan er teiknuð upp sem eitthvert hugarfóstur borgarstjórans í Reykjavík, Samfylkingarmannsins Dags B. Eggertssonar, því að staðreyndin er sú að svo er ekki. Borgarlínan er niðurstaða úr svæðisskipulagsvinnu höfuðborgarsvæðisins. Og þar sem ég tók þátt í þeirri vinnu til fjölda ára er samgönguásinn, sem hugmyndin um borgarlínu byggir á, sprottinn úr þeirri vinnu. Eins og fram kom í máli hv. þingmanns áðan eigum við von á því að 7.000 manns geti bæst við hérna á höfuðborgarsvæðinu og við erum að finna leiðir til að koma þeim fjölda á milli staða.

Þetta var niðurstaðan í svæðisskipulagsnefndinni þar sem voru fulltrúar bæði frá meiri og minni hluta allra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Ég ætla líka að fá að vera stolt af því að Sjálfstæðisflokkurinn er í meiri hluta í öllum öðrum sveitarfélögum en Reykjavík, þannig að Sjálfstæðisflokkurinn hefur átt fulltrúa í allri þeirri vinnu frá öllum sveitarfélögunum. Við styðjum þessa hugmynd vegna þess að þetta er einfaldasta, hagkvæmasta og besta hugmyndin. Hún snýst nefnilega um valfrelsi einstaklinganna, að fólk fái raunverulegt frelsi um það hvernig það ferðast á milli staða.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, vegna þess að ég veit að hann hefur mikinn áhuga á borgarskipulagi og hefur stundum verið áhugavert að hlusta á hann tala um þau mál: Styður Miðflokkurinn almenningssamgöngur? Hver er framtíðarsýn Miðflokksins þegar kemur að samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu? Eru það hestvagnar eða eru það einhver fjölbreyttari samgönguform?