150. löggjafarþing — 98. fundur,  6. maí 2020.

störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Aðstæðurnar sem við búum við í dag vegna Covid-19 faraldursins hafa haft þau efnahagslegu áhrif að stór hluti samfélagsins er settur á pásu. Það er ekki þannig að hér hafi orðið geigvænlegur aflabrestur sem valdi efnahagsvandræðunum sem núna blasa við. Það er ekki vegna þess að framleiðslutækin hafi eyðilagst. Það er bara vegna þess að hagkerfið okkar er á pásu.

Hagkerfið okkar gerir hins vegar ráð fyrir því að það sé velta í gangi, að leikurinn sé í gangi ef svo mætti að orði komast. Við verðum einnig að setja þá hluti á pásu sem við sjáum fyrir að við getum til að verja eigur almennings fyrir fyrirsjáanlegum skakkaföllum sem eru ekki honum sjálfum að kenna. Heimili eða íbúðarhúsnæði er fyrir flestum, myndi ég halda, ef ekki langflestum, Íslendingum stærsta fjárfesting sem þeir gera nokkurn tímann á lífsleiðinni. Þeir íhuga vonandi vel hvernig lán þeir geta tekið og hvernig þeir hyggist greiða af því.

Sá faraldur sem við upplifum núna gerir að verkum að forsendur eru brostnar, ekki vegna verðbólgu, ekki vegna gengisfalls, ekki vegna vaxtahækkana — þó að allt af þessu séu hugsanlegir möguleikar í nánustu framtíð — heldur vegna tekjumissis, vegna þess að fólk hefur misst tekjurnar til að standa undir greiðslu. Af því tilefni höfum við nokkrir þingmenn lagt til, og þiggjum stuðning úr hvaða átt sem kemur, að nauðungarsölum á eignum fólks, íbúðarhúsnæði þess, verði frestað fram yfir 1. júní 2021. Þetta er eðli málsins samkvæmt tiltölulega róttæk aðgerð en ef þetta eru ekki aðstæðurnar til að fara í slíkar aðgerðir veit ég ekki hvenær þær væru. Sér í lagi finnst mér réttlætanlegt núna og mikilvægt vegna eðlis vandans sem er ekki sá að lántakendur hafi á einhvern hátt misreiknað ástandið eða á einhvern hátt tekið óskynsamlegar ákvarðanir. Það er ekki hægt að kenna þeim um það. Þetta eru náttúruhamfarir sem við verðum að bregðast við með tilheyrandi hætti. Ýtum á pásu þegar kemur að nauðungarsölum þannig að almenningur í landinu geti staðið við skuldbindingar sínar eins og hann vill.